Viðskipti innlent

Arion græddi sautján milljarða

"Þetta er vel viðunandi ársuppgjör,“ er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í tilkynningu.
"Þetta er vel viðunandi ársuppgjör,“ er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í tilkynningu.
Arion banki hagnaðist um 17,1 milljarð eftir skatta í fyrra. Það er sex milljónum meiri hagnaður en árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Arðsemi eigin fjár var 13,8 prósent, samanborið við 10,5 prósent árið áður, og arðsemi af reglulegri starfsemi var 10,6 prósent, örlitlu lægri en 2011 þegar hún var 11,2 prósent.

Þá jukust rekstrartekjur verulega á milli ára, úr 33,3 milljörðum árið 2011 í 44,8 milljarða í fyrra. Í tilkynningunni segir að þetta megi einkum rekja til þess að hreinar vaxtatekjur hafi hækkað, útlán hafi rýrnað minna að virði og tekjur af hlutdeildarfélögum aukist.

„Þetta er vel viðunandi ársuppgjör. Afkoma af grunnstarfsemi bankans er ágæt og í takt við okkar væntingar," er haft eftir bankastjóranum Höskuldi H. Ólafssyni í tilkynningunni.

Meðal annars sem kemur þar fram er að gengislán bankans hafi verið færð niður um 5,7 milljarða í fyrra, samanborið við 13,8 milljarða árið 2011. Þá hafi launakostnaður bankans hækkað um 11 prósent, þar af um 5,45 prósent vegna nýs skatts á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×