Viðskipti innlent

Gott ár hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Raunávöxtun eigna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var 8,5 prósent á árinu 2012. Þetta er langmesta ávöxtun sem orðið hefur á eignum sjóðsins frá bankahruni og umtalsvert meiri en 3,5 prósenta viðmiðunarávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í hópi stærstu lífeyrissjóða landsins. Í lok síðasta árs voru eignir hans 402 milljarðar króna og höfðu þá aukist um 56 milljarða á einu ári. Eins og áður sagði var raunávöxtun eigna sjóðsins 8,5 prósent en nafnávöxtun var 13,4 prósent. Tryggingafræðileg staða sjóðsins batnaði á árinu vegna þessarar góðu ávöxtunar. Var hún metin -0,4 prósent um áramótin samanborið við -2,3 prósent í lok árs 2011 og -3,4 prósent í lok árs 2010. Á árinu 2012 greiddi sjóðurinn um átta milljarða í lífeyri til ríflega ellefu þúsund sjóðfélaga. Voru lífeyrisgreiðslur 15 prósentum meiri en árið áður. Á sama tíma námu iðgjöld til sjóðsins næstum 18 milljörðum. Í lok ársins 2012 voru um 28 prósent af eignum sjóðsins í dreifðu safni erlendra verðbréfa, 29 prósent í innlendum ríkistryggðum skuldabréfum, 10 prósent í safni sjóðfélagalána og 9 prósent í bankainnstæðum. Þá var innlend hlutabréfaeign 12 prósent af eignum sjóðsins og önnur skuldabréf 12 prósent af eignum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×