Viðskipti innlent

Landsbanki langt á eftir í gengislánum

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Íslandsbanki mun á næstu vikum birta endurútreikning um sjö þúsund gengislánasamninga, byggðan á dómi Hæstaréttar, og enn fleiri á næstu mánuðum. Arion banki mun einnig birta endurútreikning nokkur þúsund lána á næstu mánuðum sem og Drómi. Landsbankinn dregur hins vegar lappirnar og þar hafa aðeins nokkur hundruð lán verið reiknuð út, að sögn Helga Hjörvars, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Fulltrúar viðskiptabankanna þriggja, Dróma og Lýsingar komu á fund nefndarinnar í gær og fóru yfir stöðuna í gengislánamálum. Helgi segir bankana misjafnlega vel á veg komna.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að Íslandsbanki og Arion hafa gengið mjög rösklega til verks í endurútreikningum," sagði Helgi. „Þessir viðskiptabankar telja sig vera í fullum færum til að endurútreikna og þurfa ekki frekari dóma til að gera upp nærfellt 20 þúsund samninga." Helgi sagði að Drómi væri sömuleiðis að vinna í sínum málum en öðru máli gegndi með Landsbankann. Það væri áhyggjuefni.

„Eftir stendur það sem vísbendingar voru um hér í nóvember, að Landsbankinn er varla að hafast að í þessum málum að heitið geti. Hann hefur aðeins endurreiknað nokkur hundruð samninga, en bankinn er með tugi þúsunda samninga."

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi nefndarinnar í gær að þvert á fyrri yfirlýsingar væri ljóst að ekki kæmi niðurstaða í þessi mál fyrr en 2014. Það skýrðist meðal annars af því að frumvarp sjálfstæðismanna um flýtimeðferð í einkamálum hefði ekki verið samþykkt. Helgi sagði hins vegar að slík lög hefðu engu breytt þar sem ekki væri hægt að taka lögvarða fresti af með lögum. Hins vegar hefði ekki staðið á dómstólum að ljúka málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×