Viðskipti innlent

Vodafone fær fljótlega aðgang

Sævar Freyr Þráinsson segir að verð og kostnaðaráætlun verði til reiðu fyrir 1. febrúar.
Sævar Freyr Þráinsson segir að verð og kostnaðaráætlun verði til reiðu fyrir 1. febrúar.
Vodafone mun fljótlega geta boðið upp á sjónvarpsútsendingar um ljósnet Símans, í samræmi við úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í desember.

Ljósnetið, sem Síminn hyggst leggja til 53 þéttbýlisstaða á landinu til viðbótar á þessu ári, hefur hingað til verið boðið öðrum netþjónustufyrirtækjum í heildsölu.

Vodafone kvartaði hins vegar til PFS yfir því að fá ekki aðgang að kerfinu til sjónvarpsútsendinga. Niðurstaða PFS var að Síminn skyldi veita Vodafone aðganginn, og að verð og kostnaðaráætlun fyrir slíkan aðgang skyldi vera tilbúið af hálfu Símans fyrir 1. febrúar.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir að Síminn muni verða við því í tíma.

Að því loknu, og að því gefnu að Vodafone muni greiða fyrir slíkan aðgang, munu líkast til líða nokkrir mánuðir áður en Vodafone getur hafið sjónvarpsútsendingar um ljósnet Símans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×