Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir munu eignast Skipti

Stefnt er að því að ljúka endurskipulagningunni á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi 2013. Fréttablaðið/stefán
Stefnt er að því að ljúka endurskipulagningunni á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi 2013. Fréttablaðið/stefán
Gangi áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu Skipta hf. eftir munu eigendur skuldabréfaflokks félagsins eignast það að langmestu leyti. Þeir eru aðallega íslenskir lífeyrissjóðir og smærri fagfjárfestar.

Skipti, sem er móðurfélag Símans, Skjásins og Mílu, tilkynnti í gær að fjárhagsleg endurskipulagning væri að hefjast. Alls nema skuldir samstæðunnar um 62 milljörðum króna. Stærstur hluti skuldanna er vegna sambankaláns sem veitt var þegar Síminn, langstærsta eign Skipta, var einkavæddur árið 2005. Gangi áformin eftir verður sá hluti skuldanna endurfjármagnaður en sambankalánið er sem stendur á gjalddaga í desember 2013. Gert er ráð fyrir að endurskipulagningin lækki skuldir Skipta um tugi milljarða króna. Björtustu vonir standa til þess að endurskipulagningunni muni ljúka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, eða innan rúmlega mánaðar.

Með veð í öllum eignum

Skipti er stærsta íslenska fyrirtækjasamsteypan sem er augljóslega með allt of háar skuldir en hefur ekki verið endurskipulögð eftir bankahrun. Alls námu skuldirnar um 62 milljörðum króna um síðustu áramót. Þar af er sambankalán sem er á gjalddaga í desember 2013 upp á um 30 milljarða króna. Það er nú leitt af Arion banka en auk þess koma Íslandsbanki og erlendir bankar að því.

Sá hópur lánveitenda á veð í öllum undirliggjandi eignum Skipta og er því tiltölulega öruggur með sína stöðu. Að auki voru greiddir 17,2 milljarðar króna inn á lánið í apríl 2011. Það var gert vegna þess að ýmsir skilmálar lánsins höfðu verið brotnir. Alls skuldar Skipti fjármálastofnunum um 40 milljarða króna.

Lífeyrissjóðir verða eigendur

Til viðbótar gaf félagið á sínum tíma út skuldabréfaflokk sem er á gjalddaga í apríl 2014. Skipti hefur greitt vexti af þeim flokki. Höfuðstóll hans er nú um 22 milljarðar króna. Stærstu eigendur þeirra skuldabréfa eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV), Lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn. Auk þess eiga smærri fagfjárfestar bréf.

Skuldabréfaflokkurinn er óveðtryggður og því gengur fjárhagslega endurskipulagningin sem nú stendur til að ráðast í út á að fá ofangreindan hóp til að breyta kröfum sínum í hlutafé. Við það yrði hann að mestu eigandi Skipta. Núverandi eigandi, Klakki (áður Exista), myndi þynnast út samhliða.

Rekstrarhagnaður en tap

Undirliggjandi rekstur Skipta hefur verið góður og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hefur farið vaxandi. Hann var samtals 11,5 milljarðar króna á árunum 2010 og 2011.

Samanlagt tap Skipta á sömu árum var hins vegar 13,4 milljarðar króna, aðallega vegna gríðarlega mikils fjármagnskostnaðar.

Á árinu 2012 hækkaði rekstrarhagnaðurinn fyrir afskriftir og fjármagnsliði enn. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri nam hann um átta milljörðum króna. Samt sem áður var endanlegt tap samstæðunnar yfir tveimur milljörðum króna. Þar skipti fjármagnskostnaður upp á tæpa sex milljarða króna miklu máli.

Ljóst hefur verið að til lengri tíma skerða þessar aðstæður samkeppnishæfi og fjárfestingagetu Skipta-samstæðunnar. Árið 2011 voru skuldirnar enda um tífaldur rekstrarhagnaður hennar. Til samanburðar þá skulda símafyrirtæki í Evrópu að jafnaði tvöfaldan árlegan rekstrarhagnað sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×