Viðskipti innlent

Gengi Haga féll skarpt eftir uppgjör

Hagar Félagið er risi á íslenskum matvörumarkaði. Alls seldi það vörur fyrir 52,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs síns.
Hagar Félagið er risi á íslenskum matvörumarkaði. Alls seldi það vörur fyrir 52,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs síns. fréttablaðið/anton
Hagar högnuðust um 509 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi rekstrarárs. Afkoman var samt sem áður langt undir afkomuspám IFS og Íslandsbanka. Rauður dagur í Kauphöllinni í gær eftir miklar hækkanir.

Hagnaður Haga var langt undir spám. Gengi hlutabréfa í Högum lækkaði um tæp þrjú prósent í gær en félagið birti þá níu mánaða uppgjör sitt. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var töluvert lægri en árið á undan og afkoman var undir nýbirtri afkomuspá.

Hagar birtu níu mánaða uppgjör fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember 2012 í gær, en rekstrarári Haga lýkur í lok febrúar á hverju ári. Þar kom fram að hagnaður tímabilsins var rúmir tveir milljarðar króna á tímabilinu.

Þrátt fyrir að félagið hafi hagnast á þriðja ársfjórðungi ársins 2012 um 509 milljónir króna var það töluvert minni hagnaður en Hagar sýndu á sama fjórðungi árið 2011. Þá hagnaðist félagið um 842 milljónir króna. EBITDA-hagnaður (hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta) jókst hins vegar á milli ára um 19 milljónir króna. Hann var 914 milljónir króna nú en 895 milljónir króna á sama fjórðungi árið 2011.

Í afkomuspá sem IFS Greining birti um Haga í síðustu viku var gert ráð fyrir því að EBITDA-hagnaðurinn yrði 1.199 milljónir króna og að hagnaður þess yrði 703 milljónir króna. Alls munar 27,6 prósentum á hagnaði Haga og því sem IFS spáði að félagið myndi hagnast um á tímabilinu 1. september til loka desember.

Í afkomuspá Greiningar Íslandsbanka, sem kynnt var fyrir fjárfestum á fimmtudag í síðustu viku, var því spáð að EBITDA-hagnaður yrði 1.346 milljónir króna og lokahagnaður 826 milljónir króna. Alls munaði 38,3 prósentum á hagnaðarspá Íslandsbanka og uppgjöri Haga. Því er afkoma Haga á þriðja ársfjórðungi umtalsvert undir spám greiningaraðilanna.

Í tilkynningu frá Högum vegna uppgjörsins kemur þó fram að rekstur félagsins yfir allt níu mánaða tímabilið hafi verið góður og betri en á sama tímabili fyrir árið á undan. Reksturinn er auk þess sagður vera yfir áætlunum á tímabilinu.

Hagar eru stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi og með mesta markaðshlutdeild allra á matvörumarkaði. Félagið rekur alls 62 verslanir og 95 prósent af tekjum þess koma frá matvörueiningunum Bónus og Hagkaup. Alls seldu Hagar vörur fyrir 16,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi rekstrarárs. Á fyrstu níu mánuðum þess seldi félagið vörur fyrir 52,3 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×