Handbolti

Aron: Lofa því að spila betur í næstu leikjum

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Aron Pálmarsson ætlar sér stóra hluti með íslenska landsliðinu í næstu leikjum heimsmeistaramótsins í Sevilla. Aron, sem leikur með Kiel í Þýskalandi, er allt annað en sáttur við sitt framlag til liðsins í fyrstu tveimur leikjunum og lofar því að gera betur.

„Ég var hundfúll með sjálfan mig eftir fyrsta leikinn – og ég get gert miklu betur. Og ég lofa því að spila miklu betur í næstu leikjum. Ég mun standa við það, 100%," sagði Aron í gær við Fréttablaðið.

Hann telur að Ísland eigi helmingslíkur á því að leggja Makedóníu að velli í dag í Sevilla.

„Við ætlum að mæta dýrvitlausir til leiks og berja á þeim allan leikinn. Kiril Lazarov er þeirra aðalmaður og við þurfum að hafa góðar gætur á honum, ásamt fleiri leikmönnum. Vörnin þarf að vera í lagi og þannig náum við hraðaupphlaupum á þá og gerum þá pirraða fljótt," segir Aron.

„Vignir Svavarsson og Sverre Jakobsson fá það verkefni að glíma við risastóra línumenn þeirra en við hinir þurfum að fara fram og berja skytturnar. Þetta er okkar leikstíll og við erum vanir þessu, ég held að þetta eigi eftir að virka gegn Makedóníu," segir Aron, sem tekur ekki mikið mark á fyrstu tveimur leikjum Makedóníu á HM.

„Ég held að þeir hafi mætt með hangandi hendi í fyrstu tvo leikina gegn Síle og Katar. Þeir ætluðu sér að eyða sem minnstu púðri í þá leiki og landa bara sigrum. Svo þegar kemur að stóru leikjunum stíga þeir upp og sýna sitt rétta andlit. Við munum ekki vanmeta þá og það eru helmingslíkur á sigri," sagði Aron Pálmarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×