Handbolti

Vignir: Ljósunum að kenna að ég klikka

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Vignir Svavarsson er í aðalhlutverki í varnarleik Íslands. Hann er einnig drjúgur í hraðaupphlaupum.
Vignir Svavarsson er í aðalhlutverki í varnarleik Íslands. Hann er einnig drjúgur í hraðaupphlaupum. Mynd/Vilhelm
Vignir Svavarsson lék vel í 38-22 sigri Íslands gegn Síle, en varnartröllið skoraði alls 4 mörk úr alls 6 tilraunum – öll nema eitt úr hraðaupphlaupum. Vignir átti reyndar sendingu sem varð næstum því að marki en boltinn hafnaði í stönginni. „Þetta var sending – ekki skot, bara svo það sé á hreinu," sagði Vignir.

„Ungu strákarnir stóðu sig vel, vissulega gerðu þeir mistök eins og við allir, þeir héldu uppi hraðanum í leiknum og það var gaman að fylgjast með þeim. Við þurfum að hvíla okkar lykilmenn í svona löngu móti, og þetta var öruggur sigur og skynsamlega leikið," sagði Vignir, en hann er með fína skýringu á því af hverju hann á það til að klikka úr opnum færum eftir hraðaupphlaup.

„Yfirleitt er það lýsingin sem blindar mann eða að flass frá ljósmyndara hefur þessi áhrif. Ljósin trufla þegar ég klikka í dauðafæri – það er bara þannig. Ég er með tvær útgáfur sem ég nota, skrúfa boltann í gólfið eða dúndra bara, og þegar boltinn fer í markið þá er sú útgáfa sú besta," sagði Vignir í léttum tón.

Ásgeir Örn Hallgrímsson svaraði fyrir sig á vellinum en hann var alls ekki sáttur við sinn leik gegn Rússum þar sem hann skoraði aðeins 1 mark. Ásgeir var virkilega ákveðinn gegn Síle og skoraði alls 4 mörk úr 5 tilraunum og var valinn maður leiksins af dómnefnd í leikslok.

„Hægri vængurinn er mættur aftur," sagði Ásgeir Örn. „Mér fannst mikilvægast að við unnum en ég var staðráðinn í því að gera betur en gegn Rússum án þess að vera of eigingjarn. Ungu strákarnir bættu í þegar þeir komu inn – og það þarf að leyfa þessum ungu strákum að sprikla af og til. Makedóníuleikurinn er næst á dagskrá og við þurfum að laga ýmislegt hjá okkur til þess að bæta leik okkar enn frekar," sagði Ásgeir Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×