Handbolti

Aron aðeins marki frá meti Ólafs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson, nýkrýndur íþróttamaður ársins, skoraði níu mörk í fyrsta landsleik eftir kjörið og aðeins einn handboltamaður hefur gert betur.

Aron Pálmarsson, nýkrýndur íþróttamaður ársins, átti mjög flottan leik á móti Svíum í fyrrakvöld þegar hann skoraði 9 mörk úr aðeins 13 skotum. Aron virtist hafa lítið fyrir mörkum sínum og skoraði að því er virtist að vild þar til Svíar fóru markvisst að reyna að klippa hann út úr leiknum. Aron vantaði á endanum aðeins eitt mark til þess að jafna met.

Þetta er nefnilega næsthæsta markaskor hjá nýkrýndum íþróttamanni ársins í sínum fyrsta leik með landsliðinu eftir kjörið. Ólafur Stefánsson skoraði marki meira í 32-28 sigri á Þjóðverjum í æfingaleik í upphafi árs 2010.

Ólafur var reyndar í miklum ham í fyrstu tveimur leikjunum því hann skoraði níu mörk í öðrum sigri á Þjóðverjum daginn eftir. Þetta voru fyrstu landsleikir hans í sextán mánuði og hafði hann því verið kosinn tvisvar sinnum íþróttamaður ársins síðan að hann lék sinn síðasta landsleik.

Ólafur bætti þá 41 árs gamalt met Geir Hallsteinssonar sem skoraði átta mörk í sigri á Spáni daginn eftir að hann var kosinn íþróttamaður ársins fyrir árið 1968. Geir skoraði síðan níu mörk í öðrum sigurleik á Spánverjum daginn eftir.

Það sem Aron hefur þó fram yfir Ólaf er að Aron skoraði öll mörkin sín utan af velli á móti Svíum en sex af tíu mörkum Ólafs komu af vítalínunni. Geir skoraði 2 af 8 mörkum sínum af vítalínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×