Viðskipti innlent

32 prósenta fækkun gjaldþrota

ÓKÁ skrifar
Fyrirtæki í byggingariðnaði fóru helst á hausinn í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrirtæki í byggingariðnaði fóru helst á hausinn í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrstu ellefu mánuði síðasta árs voru 1.605 einkahlutafélög nýskráð en fjöldi gjaldþrota nam 977. Fram kemur á vef Hagstofu Íslands að frá fyrra ári hafi nýskráningum fyrstu ellefu mánuði nýliðins árs fjölgað um tæplega þrjú prósent, en gjaldþrotum fækkað um rúmlega 32 prósent.

Hagstofan birti í gær tölur um skráningu einkahlutafélaga og gjaldþrotaskipti í nóvembermánuði síðastliðnum.

„Í nóvembermánuði voru skráð 132 ný einkahlutafélög, flest í fasteignaviðskiptum og í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Til samanburðar voru 165 ný einkahlutafélög skráð í nóvember í fyrra,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar. Fyrstu ellefu mánuði ársins 2011 voru nýskráð 1.563 fyrirtæki, miðað við 1.605 á sama tíma á síðasta ári.

„Þá voru 66 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í nóvembermánuði, flest í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.“ Gjaldþrot fyrstu ellefu mánuði ársins fóru úr 1.441 árið 2011 í 977 árið 2012. Að því er fram kemur á vef Hagstofunnar eru flest gjaldþrot sem fram eru komin á árinu 2012 í flokknum byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 198 talsins. Fjöldinn nemur rúmum 20 prósentum allra gjaldþrota tímabilsins.


Tengdar fréttir

66 fyrirtæki urðu gjaldþrota

Alls voru 66 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í nóvembermánuði, flest í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum. Þetta eru næstum helmingi færri gjaldþrot en í sama mánuði árið áður þegar þau urðu 115 talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×