Viðskipti innlent

Segjast vissir um viðsnúning á árinu 2013

ÞJ skrifar
Írland stýrir nú starfi ráðherraráðs ESB í sjöunda sinn. Írar hyggjast leggja áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum og baráttu gegn atvinnuleysi ungs fólks.Nordicphotos/AFP
Írland stýrir nú starfi ráðherraráðs ESB í sjöunda sinn. Írar hyggjast leggja áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum og baráttu gegn atvinnuleysi ungs fólks.Nordicphotos/AFP
Írland mun leggja höfuðáherslu á að vinna að efnahagslegum stöðugleika og gegn atvinnuleysi ungs fólks á meðan ríkið fer með formennsku í ráðherraráði ESB. Írar tóku við um áramót og leiða starfið út júnímánuð.

Talsmenn írskra stjórnvalda segjast vissir um að 2013 verði ár viðsnúnings í ESB, sem hefur strítt við mikla erfiðleika síðustu ár.

Sem formennskuríki leggur Írland línurnar í starfi ráðherraráðsins, þar sem ráðherrar aðildarríkjanna 27 ráða ráðum sínum í mismunandi málaflokkum.

Auk fyrrnefndra mála stefna Írar að því að efla tæknigeirann með áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki, auka möguleika sem felast í náttúruauðlindum til sjós og lands og vinna að frekari viðskiptasamningum og stækkun ESB.

Undir formennsku Íra er búist við að áfram þokist í aðildarviðræðum Íslands við ESB en þó verði ekki hafnar viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál fyrr en á seinni helmingi ársins, þegar Litháen hefur tekið við formennskunni.

Í stefnumótunarskjali Írlands, Litháens og Grikklands, sem tekur við í janúar 2014, segir að rétt sé að efla aðildarferli Tyrklands og búist sé við því að viðræðurnar við Ísland geti komist á lokastig fyrir árslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×