Viðskipti innlent

Áhyggjur af skuldastöðu ríkisins minnka

MÞL skrifar
Skuldatryggingarálag ríkissjóðs hefur lækkað um 20% á síðustu þremur mánuðum. Raunar hefur álagið lækkað jafnt og þétt frá miðju síðasta ári, mælist nú 182 punktar en var 312 punktar í byrjun júní.

Skuldatryggingarálag er ágætur mælikvarði á gjaldþrotaáhættu ríkissjóðs. Álagið er í raun það vaxtaálag sem fjárfestar krefjast á skuldabréf ríkissjóðs sem umbunar fyrir þá hættu að ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Lækkandi skuldatryggingarálag bendir því til þess að áhyggjur fjárfesta af skuldastöðu ríkisins fari minnkandi.

Áður en áhyggjur vöknuðu af stöðu íslenska bankakerfisins seinni hluta árs 2007 var skuldatryggingaálag ríkisins undir tíu punktum þótt það hafi hækkað um tíma meðan á hinni svokölluðu míní-krísu stóð árið 2006. Í kjölfar bankahrunsins fór álagið hæst í tæplega 1.500 punkta í október 2008 en hefur farið sífellt lækkandi síðan ef frá er skilinn kúfur haustið 2009.

Í september fór skuldatryggingaálagið niður fyrir 200 punkta í fyrsta sinn síðan sumarið 2008 en reis skömmu síðar aftur upp fyrir 200 punktana. Frá því í byrjun nóvember hefur álagið hins vegar haldist neðan við 200 punkta og var 182 punktar í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×