Viðskipti innlent

Unnið að afnámi hafta á heimili og rekstrarfyrirtæki

ÞSJ skrifar
Mynd úr safni.
Unnið er að leiðum til að losa heimili og rekstrarfyrirtæki undan gjaldeyrishöftum og láta þau fyrst og fremst hvíla á fjármálaviðskiptum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Þá er stefnt að því að leggja fram frumvarp í þessum mánuði um breytingar á lögum um gjaldeyrishöft, þess efnis að afnám þeirra verði bundið efnahagslegum skilyrðum í stað þess að þau verði afnumin á ákveðnum tíma. Nefnd fulltrúa allra þingflokka sem vinnur að hugmyndum um afnám hafta mun auk þess koma á framfæri hugmyndum til Seðlabanka Íslands um leiðir sem hún telur að muni hjálpa til við afnám haftanna.

Fréttablaðið greindi hinn 21. desember frá bréfi nefndarinnar til formanna stjórnmálaflokkanna. Þar kom fram að nefndarmenn væru sammála um að gjaldeyrishöft skyldu vera ótímabundin og að afnám þeirra yrði þess í stað háð efnahagslegum skilyrðum. Í kjölfarið fundaði nefndin með formönnunum. Heimildir Fréttablaðsins herma að þverpólitísk sátt sé um þær leiðir sem tíundaðar eru í bréfinu og að frumvarp um breytingarnar verði lagt fram snemma á komandi þingi, sem hefst 14. janúar. Samhliða verður lagt til við Seðlabanka Íslands að flýta sér hægt í að veita undanþágur fyrir þrotabú gömlu bankanna, Kaupþings og Glitnis, til gjaldeyrisviðskipta. Bæði þrotabúin hafa óskað eftir slíkum undanþágum til að geta klárað nauðasamninga.

Nefndin vinnur auk þess að leiðum til að koma á umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga fyrir heimili og rekstrarfyrirtæki eins fljótt og auðið er. Með því á að reyna að móta tillögur um hvernig hægt verði að afmarka höftin við fjármálaviðskipti. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru það helst aflandskrónur og endurgreiðslur úr þrotabúum föllnu bankanna sem höftin eiga áfram að ná til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×