Viðskipti innlent

Eignir heimilanna aukast meira en skuldir

Brjánn Jónasson skrifar
Um 26 þúsund fjölskyldur skulda ekkert í fasteign sinni en 68 þúsund fjölskyldur til viðbótar skulda að meðaltali 17 milljónir í sínum eignum.
Um 26 þúsund fjölskyldur skulda ekkert í fasteign sinni en 68 þúsund fjölskyldur til viðbótar skulda að meðaltali 17 milljónir í sínum eignum. Fréttablaðið/Anton
Skuldir íslenskra heimila jukust um rúmlega 1,5 prósent á síðasta ári og skuldar meðalheimilið nú um 12 milljónir króna. Eignirnar jukust þó meira, um 6,9 prósent samkvæmt samantekt Ríkisskattstjóra.

Íslensk heimili skulduðu samtals 1.785 milljarða króna í árslok 2012 samanborið við 1.759 milljarða í byrjun þess árs.

Um 68 þúsund fjölskyldur af þeim 94 þúsundum sem telja fram skulduðu í húsnæði sínu en 26 þúsund skulda ekkert í húsnæði sínu. Heildarskuldir heimilanna vegna húsnæðisskulda voru 1.159 milljarðar í lok árs 2012. Það þýðir að þær fjölskyldur sem á annað borð skulda vegna húsnæðiskaupa skulda um 17 milljónir að meðaltali.

Eignir heimilanna námu 3.861 milljarði króna í lok síðasta árs og höfðu þá aukist um 6,9 prósent á árinu. Aukningin er borin uppi að mestu af hækkandi verðmæti fasteigna. Verðmæti fasteigna, sem er ríflega tveir þriðju af eignum heimilanna, jókst um 9 prósent á árinu 2012 en verðmæti annarra eigna um 2,4 prósent.

Fjármagnstekjuskattur skilar meiru

Einstaklingar greiða 11,7 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt vegna ársins 2012, sem er 13,9 prósenta aukning frá síðasta ári. Um 42 þúsund greiddu fjármagnstekjuskatt á árinu.



Alls greiddu 5.980 aðilar, um 3.100 fjölskyldur, samtals 5,6 milljarða króna í auðlegðarskatt vegna ársins 2012. Það er 0,3 prósenta lækkun frá árinu 2011. Viðbótarauðlegðarskattur var lagður á hlutabréfaeign 4.988 skattgreiðenda, samtals 3,5 milljarðar króna, sem er 44 prósenta aukning milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×