Viðskipti innlent

Bolli Thoroddsen kjörinn formaður Verslunarráðs Íslands í Japan

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bolli Thoroddsen, nýr formaður Verslunarráðs Íslands í Japan.
Bolli Thoroddsen, nýr formaður Verslunarráðs Íslands í Japan.
Bolli Thoroddsen, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Takanawa og doktorsnemi við Waseda háskólann í Tókýó, var í dag kjörinn formaður Verslunarráðs Íslands í Japan.

Kjörið fór fram á aðalfundi félagsins í sendiráði Íslands í Tókýó, að því er fram kemur í fréttatilkynningu ráðsins.

„Verslunarráðið fagnar á árinu 10 ára afmæli, en það var sett á stofn árið 2003 af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, og Dr. Eyþóri Eyjólfssyni, þáverandi ræðismanni Íslands í Tókýó í samstarfi við fulltrúa japanskra og íslenskra fyrirtækja og sendiráð Íslands í Tókýó.

Verslunarráðið er skipað 21 fulltrúa, m.a.  frá nokkrum af stærstu fyrirtækjum Japans. Þar má nefna Mitsubishi Corporation sem er eitt stærsta fjárfestingafyrirtæki Japans, Mitsubishi Heavy Industries eitt stærsta framleiðslufyrirtæki Japans, Fuji Electric og Maruha Nichiro stærsta sjávarútvegsfyrirtækis heims. Stór íslensk fyrirtæki eins og Eimskip og sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic ásamt íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Cooori eiga einnig fulltrúa í Verslunarráðinu.

Árni G. Hauksson, fjárfestir, var kjörinn varaformaður. Halldór Elís Ólafsson, viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í Tókýó, var skipaður aðalritari. Í stjórn voru kjörnir Arnar Jensson, forstjóri Cooori, Kaoru Nozu, ráðgjafi, Kanji Ohashi, forstjóri Grand Hyatt Tókýó, Loftur Þórarinsson, forstjóri Winaico Japan, og Taro Miyazaki, sölustjóri Icelandic Japan.

Utan Evrópu er Japan næst stærsta viðskiptaland Íslands á eftir Bandaríkjunum og jafnframt þriðja stærsta efnahagsveldi heims. Japan var fyrsta erlenda ríkið til að styðja Ísland innan Alþjóðagjaldeyrissjóðins eftir efnahagshrunið 2008. Japan er eitt þeirra erlendu ríkja sem styrkja hvað mest íslenska náms- og listamenn. Ferðmannafjöldi frá Japans til Íslands hefur aukist um 15% árlega á sl. árum og er japanska orðin næst vinsælasta erlenda tungumálið sem kennt er við Háskóla Íslands.

Ný stjórn Verslunarráðsins mun einsetja sér að styðja og efla enn frekar viðskiptatengsl þjóðanna í samstarfi við sendiráð Íslands í Tókýó. Stjórnin mun m.a. standa að reglulegum fræðslu- og umræðufundum um möguleg viðskiptatækifæri og efnahagshorfur, veita bæði íslenskum og japönskum fyrirtækjum upplýsingar og stuðning, kynna fjárfestingarmöguleika, styðja við heimsóknir íslenskra og japanskra þingmanna og ráðherra, fjölga meðlimum Verslunarráðsins, styðja við stofnun japansks Verslunarráðs á Íslandi, ofl.," segir í tilkynningunni.

Ný stjórn og meðlimir Verslunarráðs Íslands í Japan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×