Russell Westbrook, leikstjórnandi Oklahoma City Thunder, missir af fyrstu vikum körfuboltatímabilsins eftir að hann þurfti að fara í aðgerð á hné. Westbrook er einn af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar.
Westbrook meiddist í öðrum leik Oklahoma City Thunder í úrslitakeppninni síðasta vor og Thunder-liðið saknaði hans mikið enda var þessi frábæri leikmaður að skora 23,2 stig og gefa 7,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Westbrook hafði aldrei misst úr leik þegar hann meiddist.
Westbrook fór í aðgerð í maí og það bjuggust allir við að hann væri búinn að ná sér fyrir tímabilið. Westbrook fann hinsvegar fyrir bólgum í hnénu og þurfti því að leggjast aftur undir hnífinn í dag. Hann missir fyrir vikið af fjórum til sex vikum á tímabilinu.
Oklahoma City Thunder fór alla leið í lokaúrslitin 2012 en án Russell Westbrook var liðið ekki sama lið og datt fyrir vikið út í annarri umferð á móti Memphis Grizzlies.

