Handbolti

Króatar náðu bronsþrennunni - unnu Slóvena 31-26

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Domagoj Duvnjak.
Domagoj Duvnjak. Mynd/AFP
Króatar tryggðu sér þriðja sæti á HM í handbolta á Spáni með því að vinna öruggan fimm marka sigur á nágrönnum sínum í Slóveníu, 31-26, í leiknum um 3. sætið í Barcelona í kvöld. Króatar hafa þar með unnið bronsverðlaun á þremur síðustu stórmótum því þeir voru einnig í 3. sæti á Ólympíuleikunum í London 2012 og á EM í Serbíu 2012.

Króatar náðu að rífa sig upp eftir slæmt tap í undanúrslitaleiknum á móti Dönum í gær sem var langslakasti leikur liðsins á mótinu. Króatía var 14-13 yfir í hálfleik en gerði út um leikinn á upphafsmínútum seinni hálfleiks þegar liðið breytti stöðunni úr 14-14 í 21-14.

Domagoj Duvnjak og Ivan Cupic skoruðu báðir átta mörk fyrir króatíska liðið og Bicanic var með fimm mörk. Vid Kavticnik skoraði mest fyrir Slóveníu eða fjögur mörk en alveg eins og í undanúrslitaleiknum á móti Spáni þá misstu Slóvenar leikinn frá sér í byrjun seinni hálfleiks.

Slavko Goluza er þjálfari króatíska landsliðsins en hann tók við liðinu eftir EM 2010 þar sem Króatar enduðu í 2. sæti. Króatía vann Ísland í leiknum um 5. sætið á HM 2011 og hefur síðan endaði í 3. sæti á þremur síðust mótum sem er frábær árangur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×