Viðskipti innlent

AGS: Skuldir heimila og fyrirtækja nær tífölduðust á fimm árum

Heildarskuldir íslenskra heimila og fyrirtækja fóru á fimm ára tímabili úr því að vera rúmlega landsframleiðsla landsins og yfir í að vera á við tæplega tífalda landsframleiðsluna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Skýrslan sýnir mismuninn á stöðu skulda heimila og fyrirtækja í Evrópu árin 2005 og 2010 og þróunina þar á milli.

Hvað skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja varðar fóru þær úr um 120% af landsframleiðslunni og í 956% árið 2010. Í skýrslunni segir að fjármálafyrirtæki, þar með þrotabú bankanna, séu ekki tekin með í þessum tölum.

Næst á eftir Íslandi á listanum er Írland en skuldir heimila og fyrirtækja þar eru um þrefalt minni en á Íslandi mælt sem hlutfall af landsframleiðslu. Bretland og Holland koma svo í næstu sætum en þar eru skuldirnar um tvöföld landsframleiðslan. Á Norðurlöndunum er hlutfallið á bilinu 120% til 150%.

Athygli vekur að í Grikklandi, sem rambað hefur á barmi þjóðargjaldþrots vegna opinberra skulda, er hlutfall skulda heimila og fyrirtækja með lægsta móti í Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að samanlagt námu þær innan við 50% af landsframleiðslu landsins árið 2010.

------------

Athugasemd frá Seðlabankanum kl. 11:50 þann 22.2.2013.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir að samanlagðar skuldir heimila og fyrirtækja hafi farið úr því að vera liðlega 280% af VLF árið 2005 í um 400% árið 2010 sem er rúmlega 40% aukning. Hæst hafi þessar skuldir farið í um 500% árið 2008 sem er um 130% aukning á fimm árum (frá árinu 2003). Þorvarður vísar í gögn sem má finna í fjármálastöðugleikaskýrslum máli sínu til stuðnings.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×