Viðskipti innlent

Benni og Bílabúð Benna dæmd í Héraðsdómi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Benedikt Eyjólfsson var ósáttur við að þurfa að skila inn ársreikningum til ársreikningaskrár.
Benedikt Eyjólfsson var ósáttur við að þurfa að skila inn ársreikningum til ársreikningaskrár. Mynd/ GVA.
Benedikt Eyjólfsson, sem oftast er kenndur við Bílabúð Benna, hefur verið dæmdur til að greiða ásamt fyrirtæki sínu 750 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Benedikt skilaði ekki ársreikningum til ársreikningaskrár fyrir árin 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010, fyrr en of seint.

Benedikt tók fram fyrir dómi að ársreikningar fyrirtækisins hefðu alltaf verið færðir lögum samkvæmt á því tímabili sem ákæra tók til og hafi þeim verið skilað með skattframtölum félagsins til ríkisskattstjóra. Jafnframt hefði félagið staðið skil á öllum sköttum og skyldum. Hins vegar hefði hann ekki sent ársreikningana til ársreikningaskrár eins og lög gera ráð fyrir. Hann kvaðst ósáttur við að vera skyldaður til þess að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar. Með því væru upplýsingar um rekstur félagsins aðgengilegar samkeppnisaðilum á markaði, sem á þeim tíma sem um ræðir hefðu fyrst og fremst verið bankastofnanir. Kvaðst ákærði því hafa tekið ákvörðun um að skila ekki ársreikningum til ársreikningaskrár.

Í dómnum kemur fram á ársreikningum var skilað til ársreikningaskrár eftir að gerðar voru athugasemidir við að þeim hafði ekki verið skilað. Þá er skýrt tekið fram í dómnum að Benedikt hefur aldrei áður gerst brotlegur við lög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×