Viðskipti innlent

Frumvarpið sagt skref í rétta átt

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Fréttablaðið/GVA
„Þetta er spor í rétta átt,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri um nýframkomið fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að lokinn kynningu á stýrivaxtaákvörðun í gær.

Már sagði jákvætt að frumjöfnuður (afgangur á jöfnuði fyrir fjármagnstekjur og -gjöld) hafi aukist á milli ára, þótt aukningin hafi ekki verið jafnmikil og að hafi verið stefnt. Um leið áréttaði hann mikilvægi þess að heildarafgangur náist sem fyrst á ríkissjóði.

„Það er afgangur á rekstrargrunni, en hann er mjög lítill og má lítið út af bera til að hann hverfi,“ sagði Már. Aukinheldur ætti eftir að skoða að hve miklu leyti hann bygði á athugun á því að breyta fyrirkomulagi varðandi fjárhagsleg samskipti Seðlabankans og ríkissjóðs.

„Mikilvægt er samt að leggja áherslu á að tilfærslur milli Seðlabanka og ríkissjóðs eru ekki að hafa þau áhrif á efnahagslífið sem við erum að sækjast eftir,“ sagði Már. Hann teldi alla sammála um að ríkissjóð ætti ekki að fjármagna með peningaprentun, það væri þekkt uppskrift að óstöðugleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×