Viðskipti innlent

Búist við hundruð gesta á hakkararáðstefnu í Hörpu

Kristján Hjálmarsson skrifar
Fjöldi fyrirlesara á sviði öryggis- og upplýsingamála munu koma fram á ráðstefnunni.
Fjöldi fyrirlesara á sviði öryggis- og upplýsingamála munu koma fram á ráðstefnunni.
Reiknað er með að hátt í 300 gestir mæti á tölvuöryggis- og upplýsingamálaráðstefna Hacker Halted sem haldin verður í Hörpu í byrjun næstu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin hér á landi.

Hacker Halted hefur síðustu tíu ár verið haldin í Bandaríkjunum, Japan, Malasíu og Dubaí svo nokkur lönd séu nefnd, að því er segir í tilkynningu.

Fjöldi fyrirlesara á sviði öryggis- og upplýsingamála munu koma fram á ráðstefnunni en í ár er kastljósinu meðal annars beint að stafrænum öryggisógnunum og hvernig hægt er að verjast þeim.

Þá verða haldnar bæði vinnustofur og námskeið um margvísleg öryggis- og upplýsingamál. Meðal annars verður kynnt úttekt á netöryggismálum á Íslandi sem unnin er af KPMG og er það í fyrsta sinn sem slík úttekt er gerð. Námskeiðin sem haldin eru í tengslum við ráðstefnuna eru svo kallaðar EC-Council gráður sem öryggissérfræðingar FBI, NSA, Microsoft, IBM og fjöldi ríkisstofnana og ráðuneyta bera.

Fyrirtækið Promennt stendur fyrir ráðstefnunni og er hægt að skrá sig á hana á síðunni hackerhalted.is.

Búið er að tryggja réttinn á ráðstefnunni hér á landi næstu þrjú árin og mun Jay Bavisi, forseti EC-Council halda aðalfyrirlestur ráðstefnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×