Það er farið að styttast í að Kobe Bryant snúi aftur út á körfuboltavöllinn með Los Angeles Lakers í NBA körfuboltanum eftir að hafa slitið hásin í apríl.
Mike D´Antoni þjálfari Lakers segir ljóst að Kobe Bryant verði ekki með liðinu þegar það mætir Portland Trail Blazers í kvöld en hann gæti leikið sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar Lakers sækir Sacramento Kings heim á föstudaginn.
Lakers á fjóra daga án þess að leika og mun liðið nota þrjár æfingar liðsins á þeim tíma til að athuga hvernig Kobe líður og hvort hann verði klár í slaginn.
„Ég vil ekki gefa mér neitt,“ sagði D´Antoni eftir æfingu í gærkvöld. „Þetta eru dagar þar sem hann getur unnið í sínum málum og við getum tekið ákvörðun í kjölfarið. Það þýðir ekki að hann leiki á föstudaginn en það þýðir ekki heldur að hann geri það ekki.“
Lakers æfði í gær og tók Kobe Bryant fullan þátt í æfingunni.
„Hann var ekkert ryðgaður,“ sagði Jodie Meeks leikmaður Lakers. „Ég er viss um að hann hafi haldið sér við og skotið mikið.
„Okkur undirbúningur er á þann veg að hann leiki ekki. Við verðum ánægðir að fá hann aftur þegar hann kemur. Hann auðveldar okkur augljóslega leikinn.“
Steve Nash gæti hafið æfingar með Lakers á ný í næstu viku en hann hefur verið undir öruggri handleiðslu Rick Celebrini í meiðslum sínum í Kanada.
