Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari ákærir Bjarna Ármannsson

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Ármannsson fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Bjarni Ármannsson fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, hefur verið ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa ekki talið fram um 200 milljóna króna söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum í eignarhaldsfélaginu Sjávarsýn í framtali fyrir árið 2006. Í ákæru kemur fram að alls séu vantaldar fjármagnstekjur tæpar 205 milljónir króna og vangreiddur fjármagnstekjuskattur rúmar 20 milljónir króna.

Í yfirlýsingu sem Bjarni sendi fjölmiðlum síðdegis segir hann að meira en 90% af þeim skattstofni sem var vanframtalinn tengist viðskiptum milli félaga í sinni eigu sem síðar hafi verið sameinuð í eitt félag. Enginn ágreiningur sé um að gerð hafi verið mistök í skattframtalsgerðinni og hann hafi þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi skattyfirvalda.

„Það kom mér verulega á óvart að málið færi í ákærumeðferð hjá sérstökum saksóknara, bæði vegna þess að ég leiðrétti mistökin sem voru gerð og gerði upp skattskuldina með viðeigandi álagi," segir Bjarni í yfirlýsingunni.

Allt að sex ára fangelsi getur legið við umræddu broti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×