Viðskipti innlent

Air Canada refsar Edmonton flugvelli vegna Icelandair

Heimir Már Pétursson skrifar
Flugvél Air Canada lenti á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum árum vegna bilunar í hreyfli vélarinnar.
Flugvél Air Canada lenti á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum árum vegna bilunar í hreyfli vélarinnar.
Air Canada sem hefur yfirburðarstöðu á flugmarkaðnum í Kanada hefur brugðist illa við ákvörðun Icelandair að fljúga til Edmonton í Alberta fylki. Félagið hefur tilkynnt að það ætli að leggja niður flug félagsins frá borginni til Lundúna.

Icelandair tilkynnti nýlega að félagið ætli að hefja áætlunarflug milli Edmonton í Alberta í Kanada og Keflavíkur næsta vor. Þetta opnar möguleika farþega frá Edmonton til áframhaldandi flugs til annarra áfangastaða í Evrópu.

Air Canada hefur verið ráðandi á flugmarkaðnum í Kanada áratugum saman og beitt áhrifum sínum til að koma í veg fyrir gerð loftferðasamninga Kanada við önnur ríki sem fela í sér heimildir annarra flugfélaga til áætlunarflugs til landsins.

Reg Milley flugvallarstjóri Edmonton flugvallar hefur upplýst að Air Canada hafi sent honum bréf og þar sem tilkynnt var að félagið ætlaði að hætta beinu flugi sínu frá Edmonton til Lundúna vegna stuðnings flugvallarins við Icelandair til að hefja flug þaðan til Keflavíkur.

Algengt er að flugvellir veiti flugfélögum sem bjóða upp á nýja áfangastaði afsláttarkjör til hvatningar. Opinberlega sögðust talsmenn Air Canada ætla að hætta flugi frá Edmonton til London yfir vetrarmánuðina eða frá janúar til mars, en Milley segir í viðtali við CBS fréttastofuna að ástæðan fari ekki á milli mála í bréfi félagsins til hans.

Í bréfinu segir talsmaður Air Canada beinum orðum að tilkynning flugvallarins um samstarf og fjárstuðning við Icelandair hafi gefið Air Canada ástæðu til að endurskoða allt millilandaflug sitt frá Edmonton flugvelli. Ákvörðun Air Canada hefur vakið mikla reiði í viðskiptasamfélaginu í Edmonton.

Milley flugvallarstjóri segir bréf sem þetta frá mikilvægum viðskipavini áhyggjuefni, enda skipti flug Air Canada bæði flugvöllinn og samfélagið miklu máli. Þótt flug Icelandair kunni að auka samkeppnina um farþega í flugi til og frá Lundúnum muni flugvöllurinn halda áfram að leita eftir flugfélögum fyrir beint flug til alþjóðlegra áfangastaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×