Viðskipti innlent

Þorbjörn Guðmundsson: Málið dregur úr trúverðugleika lífeyrissjóðakerfisins

Magnús Halldórsson skrifar
Þorbjörn Guðmundsson.
Þorbjörn Guðmundsson.
Dómsmál á hendur fyrrverandi starfsmanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hagnaðist um 600 milljónir á gjaldeyrisviðskiptum samhliða störfum sínum fyrir sjóðfélaga, er ekki einsdæmi, en embætti sérstaks saksóknara hefur fleiri sambærileg mál til rannsóknar. Þorbjörn Guðmundsson, formaður Samiðnar og stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða, segir að máli dragi úr trúverðugleika lífeyriskerfisins, en breytingar á verklagsreglum eftir hrun eigi að koma í veg fyrir að starfsmenn lífeyrissjóða stundi stórfelld viðskipti á markaði meðfram störfum sínum fyrir sjóðfélaga.

Eftir hrun fjármálakerfisins hafa lífeyrissjóðirnir tekið verklagsrelgur vegna viðskipta starfsmanna sjóðanna föstum tökum, og er þeim óheimilt að stunda viðskipti fyrir eigin reikning samhliða fjárfestingastörfum fyrir lífeyrissjóðanna, án þessa upplýsa stjórn og stjórnarmenn um það.

Á föstudaginn var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur ákæra á hendur fyrrverandi starfsmanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem stundaði stórfelld gjaldeyrisviðskipti samhliða störfum sínum fyrir sjóðinn, en hann sá meðal annars um viðskipti er snéru að gjaldmiðlasamningum sjóðsins, samkvæmt heimildum fréttastofu. Hann er ákærður fyrir að hafa ekki greitt fjármagnstekjuskatt upp á um 60 milljónir.

Ólíkt gjaldeyriviðskiptunum sem fyrrverandi starfsmaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna stundaði, og hagnaðist á um tæplega 600 milljónir á árunum 2006 til 2008, þá töpuðu lífeyrissjóðir landsins miklum peningum á gjaldmiðlasamningum á árunum fyrir hrun.

Heildartap lífeyrissjóðanna á gjaldmiðasamningum fyrir hrunið, þar sem ýmist var veðjað á styrkingu eða veikingu krónunnar, nam 40 milljörðum króna, og hafa flestir lífeyrissjóðir landsins bókfært tap af þessum viðskiptum á árunum 2008 til 2010, sem þá var meðal þeirra þátta sem leiddu til skerðingar lífeyris sjóðfélaga.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti það við fréttastofu í dag, að málið sem snýr að fyrrverandi starfsmanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sé ekki einsdæmi, þar sem fleiri mál, þar sem starfsmenn lífeyrissjóða og eða fjármálafyrirtækja, eru til rannsóknar vegna fjárfestinga fyrir eigin reikning, samhliða störfum þar sem fjárfest er fyrir fé almennings, eru nú til rannsóknar hjá embættinu, og eru mislangt á veg komin.

Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða og formaður Samiðnar, segir að dómsmálið sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sé mikið umhugsunarefni fyrir lífeyrissjóðakerfið. „Ég tel að það sé búið að styrkja eftirlit með viðskiptum starfsmanna lífeyrissjóða núna þannig að þetta eigi í reynd ekki að geta gerst. Svona mál draga úr trúverðugleika á lífeyrissjóðunum, og það er alveg ljóst í mínum huga að allir þeir starfsmenn sem vinna við stýringu fjármuna hjá lífeyrissjóðunum geta ekki verið að stunda umfangsmikil viðskipti meðfram þeirri vinnu," sagði Þorbjörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×