Viðskipti innlent

Mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðurlandi

Magnús Halldórsson skrifar
Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Ferðamönnum á Norðurlandi hefur fjölgað mikið milli ára, en í desember 2012 voru gistnætur á hótelum í landshlutanum 60 prósent fleiri en árið á undan. Hótelstjóri Icelandair hotel Akureyri, segir mikil tækifæri í því fólgin að efla ferðaþjónustu yfir vetrartímann á Norðurlandi.

Gistinætur á Norðurlandi í desember síðastliðnum voru 3500 en í sama mánuði árið áður voru þær 2200, og nemur fjölgunin tæplega 60 prósentum, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Áhugi erlendra ferðamanna á Norðurlandi virðist fara vaxandi, og er það ekki síst rakið til vel heppnaðra markaðsherferða erlendis.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri Icelandair hotel Akureyri, segir að mikil tækifæri liggi í því að efla ferðamennsku yfir vetrartímann á Norðurlandi, þar sem einstök náttúra og vaxandi þjónusta á ýmsum sviðum, veki áhuga hjá erlendum ferðamönnum.

„Norðurland hefur ekki mikið verið kynnt, sem góður kostur fyrir erlenda ferðamenn yfir vetrartímann, en það hefur gengið mjög vel að undanförnu að efla ferðaþjónustuna utan háannatímans á sumrin, og tækifærinu eru mikil. Hér er einstök náttúrufegurð víða og þjónusta er auk þess góð og fer vaxandi, ekki síst hér á Akureyri. Ferðamenn hafa verið ánægðir með það sem þeir sjá hér og kynnast, og það er hægt að byggja á því," segir Sigrún Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×