Viðskipti innlent

Fréttaveitan sigraði í frumkvöðlakeppni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Nuus-hópurinn sigraði hugmyndakeppnina Startup Weekend á Íslandi.
Nuus-hópurinn sigraði hugmyndakeppnina Startup Weekend á Íslandi. Fréttablaðið/Daníel
Viðskipti Fréttaveitu-appið Nuus fyrir iPad og snjallsíma sem safnar fréttum og upplýsingum á einn stað stóð uppi sem sigurhugmyndin í hugmyndakeppninni Startup Weekend í ár.

„Nuus hjálpar neytandanum að nálgast fréttaefni sem hann hefur áhuga á, með aðgengilegum og þægilegum hætti. Þetta er eins og Spotify nema bara fyrir fréttir,“ útskýrir Ragnar Örn Kormáksson, skipuleggjandi Startup Weekend á Íslandi, sem fram fór um helgina.

Hugmyndirnar í ár voru af ýmsum toga. „Einn aðili hannaði bollastand fyrir reiðhjól. Þetta er allt frá öppum yfir í bollastanda.“

Þátttakendurnir, sem voru á öllum aldri, fengu þjálfun og aðstoð við uppbyggingu viðskiptahugmynda en markmið Startup Weekend er að stuðla að stofnun nýrra sprotafyrirtækja á Íslandi.

Startup Weekend er alþjóðlegur viðburður sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík en þetta er í þriðja sinn sem Klak Innovit og Landsbankinn standa fyrir slíkri helgi í Reykjavík.

„Þetta er viðburður sem við sækjum frá Bandaríkjunum en áður höfðum við verið með svipaða viðburði, svokallaðar atvinnu- og nýsköpunarhelgar víðs vegar um landið í samvinnu við Landsbankann. Startup Weekend er hins vegar stærri í sniðum,“ segir Ragnar Örn.

Dómarar keppninnar í ár voru þau Magrét Ormslev Ásgeirsdóttir frá Landsbankanum, Stefán Jökull Stefánsson frá DCG og Hrefna Briem frá Háskólanum í Reykjavík. „Þau athuguðu ýmislegt þegar þau völdu sigurhugmyndina, eins og hvort viðskiptamódelið gengi upp, hvernig tekjuöflunin gæti gengið, útfærsluna og hversu miklu hópurinn afkastaði yfir helgina,“ segir Ragnar Örn um fyrirkomulagið.

Unnið var í þrettán teymum og voru þrír til átta manns í hverju teymi, en alls tóku um 70 manns þátt í keppninni.

„Fólk fór vart út úr húsi alla helgina, það var mikill dugnaður og metnaður í fólkinu. Mikilvægt er þó að fyrirtækin eða teymin haldi áfram að vinna með hugmyndir sínar og sæki um að fara frumkvöðlakeppnina Gulleggið, sem fram fer árlega á vorin,“ segir Ragnar Örn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×