Viðskipti innlent

Almennar launahækkanir einmitt það sem hagkerfið þarfnast

UE skrifar
Ólafur Margeirsson segir að aukin neysla heimila leiði til meiri hagnaðar hjá fyrirtækjum.
Ólafur Margeirsson segir að aukin neysla heimila leiði til meiri hagnaðar hjá fyrirtækjum.
Ólafur Margeirsson doktorsnemi í hagfræði við Háskólann í Exeter segir að launahækkanir í komandi kjarasamningum geti einmitt verið innspýtingin sem hagkerfið þarfnast. Þetta kemur fram í bloggfærslu hans í gær sem heitir Launahækkanir og þversögn kostnaðar. Hann segir ekki endilega hægt að staðhæfa að miklar launahækkanir verði skaðlegar fyrir hagkerfið, þó að mikil umræða sé um það.

Almennur ótti við launahækkanir byggist á því að ef fyrirtæki stendur frammi fyrir því að hækka laun starfsmanna getur það leitt til minni hagnaðar fyrirtækisins. Ólafur bendir hinsvegar á að ekki sé hægt að heimfæra niðurstöðu fyrir hluta heildarinnar yfir á alla heildina.

Þrátt fyrir að launahækkanir hjá einu fyrirtæki hafi slæm áhrif á afkomu þess fyrirtækis er ekki það sama uppi á teningnum ef öll fyrirtæki landsins hækka laun hjá sér á sama tíma, til dæmis vegna kjarasamninga. Slíkar aðgerðir auka neyslu í hagkerfinu og þar af leiðandi getur hagnaður fyrirtækja aukist. Samkvæmt Ólafi heitir þetta fyrirbæri þversögn kostnaðar.

Ólafur slær þó varnagla og segir ekki hægt að fullyrða hvort þversögn kostnaðar sé til staðar á Íslandi í dag. En að minnsta kosti sé ljóst að það sé ekki heldur hægt að segja með fullvissu að miklar launahækkanir í komandi kjarasamningum setji fyrirtæki og hagkerfi Íslands á hliðina. Allt eins geti það verið einmitt það sem hagkerfið þarf á að halda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×