Viðskipti innlent

Vísbendingar um samdrátt í einkaneyslu frá áramótum

Kortaveltutölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins benda til þess að einkaneysla hafi dregist saman að raunvirði á fyrsta ársfjórðungi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun til og með mars á þessu ári kemur fram að debetkortavelta í mars var 4,4% minni í krónum talið en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta jókst hins vegar um 3,4% á sama kvarða mælt.

„Mikil fylgni er milli raunþróunar kortaveltu einstaklinga og einkaneyslu hér á landi, enda kortanotkun útbreiddari hérlendis en víðast hvar annars staðar. Ef tekin er saman heildar kreditkortavelta og debetkortavelta í innlendum verslunum kemur í ljós að kortavelta á þann kvarða dróst saman að raungildi um 2,3% í mars frá sama mánuði í fyrra,“ segir í Morgunkorninu.

„Er þetta athyglisvert í ljósi þess að debetkortaveltan í mars náði þetta árið að mestu yfir páskafrí landsmanna, þegar ætla mætti að heimilin gerðu betur við sig en endranær. Sé tekið mið af fyrsta fjórðungi ársins nemur samdráttur kortaveltu á þennan kvarða tæpu prósentustigi.“

Þá segir að einföld greining gefur þá niðurstöðu að einkaneysla á fjórðungnum kunni að hafa dregist saman um 1-2% frá sama tíma í fyrra. Yrði það þá í fyrsta sinn frá öðrum ársfjórðungi 2010 sem einkaneysla myndi dragast saman milli ára.

„Hér má bæta við að fram kom í nýlegu viðtali við formann Bílgreinasambandsins að samdráttur varð í bílakaupum einstaklinga og fyrirtækja nú í mars frá sama tíma í fyrra. Mikil aukning í bílakaupum einstaklinga átti talsverðan þátt í 2,7% vexti einkaneyslu í fyrra, en ekki er víst að sú þróun haldi áfram á þessu ári. Nýlegar hagspár gera ráð fyrir 2,0-2,5% vexti einkaneyslu í ár,“ segir í Morgunkorninu.

„Hljóma þær í bjartsýnni kantinum að okkar mati miðað við hvernig árið fer af stað, og hvernig horfur eru varðandi þróun á ráðstöfunartekjum heimilanna það sem eftir lifir árs.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×