Handbolti

HM 2013 | Ætlum okkur sigur – annað væri skandall

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar hér marki í leiknum gegn Rússum í gær.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar hér marki í leiknum gegn Rússum í gær. Mynd/Vilhelm
Það var frekar þungt yfir fyrirliða íslenska landsliðsins handbolta í gær þegar hann var inntur eftir því hvernig liðið myndi takast á við næsta leik gegn Síle. Ísland mætir Síle kl. 14:45 í dag en Sílemenn komu flestum á óvart í gær þegar liðið stóð vel í sterku liði Makedóníu sem landaði frekar naumum sigri, 30-28. Guðjón Valur Sigurðsson var allt annað en ánægður með sitt framlag í 30-25 tapleiknum gegn Rússum. Og það tók hann um það bil tíu sekúndur að svara því sem hann var spurður um Síle-leikinn.

„Mér er nokkuð sama hvernig þeir spila – þetta er bara leikur sem við þurfum að vinna, hvernig sem við förum að því. Við vorum lélegir gegn Rússum og það eru fullt af hlutum sem við þurfum að laga og bæta í okkar leik," sagði Guðjón Valur Sigurðsson.

Þeir leika af miklum krafti
Ásgeir Örn Hallgrímsson náði sér ekki á strik gegn Rússum í gær.Mynd/Vilhelm
Ásgeir Örn Hallgrímsson var enn fljótari að svara en Guðjón Valur: „Við þekkjum þetta lið ágætlega, þeir leika af miklum krafti, og eru hraðir, og gefa allt í leikina á svona mótum. Við getum ekki leyft okkur að slaka á gegn þeim," sagði Ásgeir Örn.

Við erum með miklu betra lið
Björgvin Páll Gústavsson sýndi ágæta takta í gærkvöldi gegn Rússum en hann byrjaði á varamannabekknum.Mynd/Vihelm
„Síle var að stríða Makedóníu og þeir áttu í vandræðum með þá. Við ætlum okkur ekkert annað en sigur, annað væri skandall. Þetta verður samt sem áður erfitt enda erum við laskaðir eftir tapið gegn Rússum. Við þurfum að nýta tímann vel og undirbúa okkur vel fyrir Síle-leikinn. Við vitum að þeir hafa bætt leik sinn töluvert á undanförnum misserum en við erum með miklu betra lið og sigur gegn þeim er það eina sem við ætlum okkur," sagði markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×