Viðskipti innlent

Stöðugt gengi mikilvægt fyrir komandi kjarasamninga

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/GVA
Gengi krónunnar hefur verið stöðugt undanfarið og er það sérstaklega mikilvægt vegna komandi kjarasamninga þar sem verðbólguvæntingar eru mótandi fyrir umsamdar launahækkanir, og þar með þá verðbólgu sem fylgir í kjölfarið.

Gengi krónunnar hefur verið stöðugt í í október og í nóvember eftir að hafa veikst nokkuð í september.  Þá hefur veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri verið lítil og þá sérstaklega núna í október.

Þetta kemur fram í frétt frá Greiningu Íslandsbanka. Þar segir einnig að Seðlabankinn hafi ekki verið með inngrip á millibankamarkaðinum frá miðjum október, sem sé lengsta tímabil án inngripa síðan í júlí síðastliðnum.

„Stöðugleiki krónunnar undanfarið er góð tíðindi. Sú mikla lækkun krónunnar sem var haustið 2012 og fram á vetur 2012/2013 er ekki að endurtaka sig nú.“Einnig er rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila stöðugra hvað þetta varðar.

Krónan hefur verið ríflega 3% sterkari gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta það sem af er nóvember en á sama tíma í fyrra. Yfir síðustu þrjá mánuði hefur krónan verið ríflega 2% sterkari en á sama tíma í fyrra. „Afraksturinn er lægri verðbólga og verðbólguvæntingar.“

„Tímasetning aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og sterkari krónu er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að framundan eru kjarasamningar þar sem verðbólguvæntingar eru mótandi fyrir þær launahækkanir sem samið verður um og þar með þá verðbólgu sem í fylgir í kjölfarið.“

Verðbólgan hefur lækkað frá 4,3% í ágúst í 3,9% í lok október samkvæmt könnun Seðlabankans. „Auk þessa höfum við undanfarið gerst öllu bjartsýnni á verðbólguþróunina næsta kastið í verðbólguspám okkar,“ segir í frétt Greiningar.

Capacent gerði könnun fyrir Samtök Atvinnulífsins og Seðlabankann í september. Þar kemur fram að tæpur helmingur stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins vænta þess að gengi krónunnar muni lækka á næstu 12 mánuðum. Aðeins 8% þeirra telja að krónan muni styrkjast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×