Innlent

Tillaga um steyptar götur í Reykjavík fær ekki brautargengi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Svikryk fór átta sinnum yfir heilsuverndarmörk við Grensásveg í fyrra en þó aðeins tvisvar vegna umferðar segir samgöngustjóri Reykjavíkurvborgar.
Svikryk fór átta sinnum yfir heilsuverndarmörk við Grensásveg í fyrra en þó aðeins tvisvar vegna umferðar segir samgöngustjóri Reykjavíkurvborgar. Fréttablaðið/Stefán
„Tilraunakaflar sem gerðir hafa verið hafa flestir eða allir misheppnast að einhverju leyti,“ segir Ólafur Björnsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, í umsögn vegna tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðislfokks um að steinsteypa götur þar sem umferðarþungi er mikill.

„Áætlað er að um tíu þúsund tonn af malbiki slitni árlega vegna notkunar nagladekkja í borginni og endar hluti þess slits sem svifryk í andrúmslofti. Talið er að minnstu agnir af þessu ryki séu hættulegar heilsu fólks,“ segir í greinargerð með tillögu sjálfstæðismanna.

„Steinsteyptar götur slitna til muna hægar undan umferðarálagi og rannsóknir benda til að við slit þess leysist mun minna svifryk úr læðingi en við akstur á malbikuðum götum. Slitmælingar á Íslandi hafa leitt í ljós að steypt slitlög slitni um það bil helmingi hægar en slitsterk malbikslög og séu því góður kostur við gatnagerð, að minnsta kosti á umferðarþungum götum,“ segja sjálfstæðismenn og bæta við að holótt malbik valdi skemmdum á bílum og skapi slysahættu.

„Ljóst er að stofnkostnaður steypulagnar er hærri en malbiks. Á móti kemur að steypa endist mun lengur og því er líklegra að notkun hennar sé mun hagkvæmari til lengri tíma litið en malbiks.“

Samgöngustjóri bendir á að áður hafi komi fram sams konar hugmyndir. „Notkun á innlendu efni var ein ástæðan á meðan sement var framleitt á Akranesi,“ segir Ólafur og vísar til skýrslu frá árinu 2009. „Raunhæf dæmi sem tekin eru í umræddri skýrslu eru malbiki í hag.“

Ólafur Björnsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar.
Ólafur kveður umhverfisþætti eins og hávaða eða svifryk ekki hafa verið tekna inn í kostnaðarsamanburð. „Varðandi slitþol sýnir nýgerð rannsókn hér á landi að þáttur malbiks í svifryki mælist nú 15 prósent á 55 prósent fyrir tíu árum,“ segir samöngustjóri og nefnir að á árinu 2012 hafi svifryk farið átta sinnum yfir heilsuverndarmörk á mælistöð við Grensásveg. „Einungis tvö skipti voru rakin til umferðar.“

Þá segir samöngustjóri gerð slitlags skipta minna máli gagnvart mengun en áður. Hávaði og sót frá umferðinni sjálfri vegi þyngra.

„Meta þarf vandlega ávinning og áhættu og gera tilraunir áður en ráðist er í að leggja steypt slitlög á götur í Reykjavík,“ segir í umsögn samgöngustjóra sem umferðar- og skipulagsráð samþykkti.

„Raunhæf dæmi sem tekin eru í umræddri skýrslu eru malbiki í hag.“

Ólafur Björnsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×