Innlent

Fernanda öðlast nýtt líf

Samúel Karl Ólason skrifar
Fernanda í svokölluðum náttúruslipp.
Fernanda í svokölluðum náttúruslipp. Mynd/Hafsteinn Hilmarsson
Skipið Fernanda kom á fast land í Helguvík í gærkvöldi eftir að hafa verið dregið frá Njarðvík í gær. Fyrirtækið Hringrás mun sjá um að rífa skipið niður í brotajárn. „Við renndum henni upp í náttúruslippinn í gærkvöldi og tókum hana fimm metrum lengra inn í rennuna í morgun, á aðeins hærri straumi,“ segir Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar.

Eldur kviknaði í skipinu í lok október þegar skipið var nálægt Vestmannaeyjum og var það dregið að bryggju í Hafnarfirði, þar sem eldur kom aftur upp í skipinu.

Nú er unnið að því að tryggja aðstæður í kringum skipið og gera aðbúnað sem allra bestan. „Þegar við erum sáttir, þá hefjum við verkið. Við munum búta niður skipið. Það eru hinar ýmsu tegundir af málmum og hin ýmsu efni um borð. Endurvinnslan er í því að flokka og vinna. Við lágmörkum rúmtakið og lestum þetta um borð í skip og flytjum á erlendan markað sem fullendurunnið hráefni til framleiðslu,“ segir Einar.

„Þetta er hin fullkomna hringrás og kannski kemur Fernanda aftur til landsins. Kannski í formi steypustyrktarjárns, þakjárns eða sem nokkur reiðhjól.“

Í skipinu eru spilliefni og segir Einar að þeim verði fargað með viðurkenndum hætti. „Við erum með spilliefnadeild hjá okkur og öllum spilliefnum verður fargað. Þar eru allir ferlar gagnsæir og við erum með starfsleyfi frá heilbrigðis- og umhverfisyfirvöldum. Það þarf að gera grein fyrir öllu. Það er öllu fargað á viðurkenndan hátt svo umhverfið beri ekki skaða af. Það er okkur mikið metnaðarmál.“

Áætlað er að verkið taki um tvo mánuði. „Við förum okkur að engu óðslega í þessu, látum umhverfið njóta vafans og tryggjum að allt verði eins og best verður á kosið. Öðruvísi verður verkið ekki hafið, fyrr en allt er klárt,“ segir Einar.

Mynd/Hafsteinn Hilmarsson
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×