Viðskipti innlent

Sextíu milljarðar og þúsundir starfa í húfi

BBI skrifar
Ál.
Ál.
Það felast ónýtt tækifæri í áliðnaði hér á landi. Ef tækifæri til að vinna það ál lengra sem framleitt er hér á landi væru gjörnýtt væru 60 milljarðar króna í húfi fyrir þjóðina og þúsundir starfa.

Þetta segir Símon Þorleifsson hjá verkfræðistofunni HRV, en verkfræðistofan hefur tekið út hvað það myndi þýða fyrir þjóðina ef meira yrði unnið úr áli hér heima.

„Það er framleitt mjög vandað ál á Íslandi," sagði Símon. „Við teljum að það yrði mikill virðisauki ef hægt væri að vinna þetta ál áfram á næsta stig. Ef við gefum okkur að við umbreytum öllu áli sem framleitt er á Íslandi í hærra verðmætastig þá erum við að tala um 60 milljarða króna sem yrðu eftir í landinu."

Auk þess myndi mikill fjöldi starfa skapast ef tækifærin væru fullnýtt. „Við erum að minnsta kosti að tala um jafnmörg störf og eru núna í greininni, mögulega tvöfalt það. Í dag eru um 2000 störf í íslenskum áliðnaði, með margföldunarstuðli eru það um 4.800," segir Símon og vísar þar til afleiddra starfa. Það er því ljóst að ófá störf myndu skapast ef hægt væri að fullvinna allt íslenskt ál hérlendis.

Framhaldsvinnslan sem um ræðir yrði ekki orkufrek en hún myndi krefjast mikillar tækni.

Símon telur að það þurfi að kynna þessa möguleika fyrir markaðinum. „Sum tækifærin eru mjög góð, önnur ekki alveg jafngóð. Það þarf bara að kynna þetta fyrir fólki. Ég held að fólk sé tilbúið að láta hendur standa fram úr ermum," segir hann.

Sem dæmi um framleiðsluvöru nefnir Símon háspennuvíra. „Hér mætti vinna niður vírinn og splæsa hann svo í kapla og vinna þá kapla enn lengra," segir hann.

„Það er ekki víst að við náum að fara með allt álið alla leið. En ákveðnar vörur væri hægt að framleiða hér á Íslandi. Það krefst náttúrlega mikillar markaðssetningar og undirbúnings," segir Símon.

Símon var gestur útvarpsþáttarins Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hann fjallaði um ónýtt tækifæri í áliðnaði. Viðtalið í heild sinni má nálgast á hlekknum efst í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×