Viðskipti innlent

Hagnaður OR 4.2 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur var 4,2 milljarðar kr. eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þetta er verulegur viðsnúningur til hins betra í rekstri OR. Á sama tímabili í fyrra var rétt tæplega 4 milljarða kr. tap á rekstrinum.

Í tilkynningu segir að góður rekstur Orkuveitu Reykjavíkur sé að festast í sessi.  Framlegð reksturs samstæðu Orkuveitunnar (EBITDA) á fyrsta fjórðungi ársins nam 7,3 milljörðum króna en var 7,2 milljarðar á sama tímabili 2012. Ytri áhrifaþættir þ.e.  gengi, álverð og vextir hafa nú jákvæð áhrif á afkomuna en þau voru neikvæð á sama tímabili í fyrra.

„Áfram er lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda og hafa þær lækkað um 10,5 milljarða króna frá fyrra ári. Með bættri rekstrarafkomu og festu við að framfylgja Plani Orkuveitunnar og eigenda fyrirtækisins er  aðgangur Orkuveitunnar að íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum nú smám saman að opnast. Það hefur gert fyrirtækið betur í stakk búið til að verja sig fyrir sveiflum í ytri áhrifaþáttum rekstursins; gengi krónunnar, vöxtum og álverði,“ segir í tilkynningunni.

Ekki á lygnum sjó

„Orkuveitan er ekki komin á lygnan sjó þó við séum farin að sjá glitta í heiðan himin. Mikilvægir áfangar hafa náðst á síðustu vikum og mánuðum og skiptir þar mestu að fyrirtækið nýtur nú trausts á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Nýlegir lána- og áhættuvarnasamningar eru til marks um það,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar í tilkynningunni.

„Starfsfólk og stjórnendur eiga heiður skilinn fyrir staðfestu í að halda Plani. Aðgerðaáætlunin er nú rúmlega tveggja ára og hefur staðist í öllum veigamestu þáttum hennar og gott betur. Á sama tíma hefur tekist að halda uppi traustri og góðri þjónustu og við vinnum stöðugt að því að tryggja viðskiptavinum Orkuveitunnar öruggan aðgang að orku og hreinu vatni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×