Handbolti

Wilbek: Frábært sóknarlið mætir frábæru varnarliði

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Ulrik Wilbek.
Ulrik Wilbek. vísir/getty
Danir eru taldir á meðal sigurstranglegustu liða á HM í handbolta en liðið tapaði gegn Frökkum í framlengdum úrslitaleik fyrir tveimur árum í Svíþjóð. Þjálfari Dana, Ulrik Wilbek, býst við hörkuleik gegn Íslendingum í kvöld á HM á Spáni – þar sem frábært sóknarlið mætir frábæru varnarliði.

„Varnarleikur Íslands er þeirra helsta vopn. Ég sá leikinn gegn Makedóníu og þar var vörn Íslands í heimsklassa – og það er alltaf þannig að Íslendingar gefast aldrei upp í vörninni. Makedónía átti í miklum vandræðum með að skora gegn uppstilltri og vel skipulagðri vörn Íslands og við þurfum að finan lausnir til þess að brjóta þessa vörn á bak aftur. Við erum með gott sóknarlið og ég held að leikurinn í kvöld verði barátta á milli sóknar – og varnarleiks. Og það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður.

Wilbek veit að það eru margir sem spá Dönum sigri á þessu heimsmeistaramóti – en Danir hafa aldrei náð alla leið á HM.

„Ég veit ekki hvort við förum heim til Danmerkur með gullpening um hálsinn – en markmiðið er að komast í undanúrslit, og gera þá leið eins auðvelda og hægt er. Fyrsta verkefnið er að tryggja okkur efsta sætið í riðlinum og framhaldið er síðan í okkar höndum.

Wilbek telur að fjarvera margra lykilmanna hjá Íslandi dragi verulega úr styrk liðsins. „Það eru stórkostlegir leikmenn sem eru ekki með Íslendingum á þessu móti og sóknarleikur liðsins ber þess merki. Það vantar Alexander Petersson, Arnór Atlason og auðvitað er Ólafur Stefánsson ekki lengur með. Öll lið myndu sakna slíkra leikmanna," sagði Ulrik Wilbek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×