Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður á 2200 fasteignir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeim fækkar sem vilja taka lán frá Íbúðalánasjóði.
Þeim fækkar sem vilja taka lán frá Íbúðalánasjóði. Mynd/ Vilhelm.
Íbúðalánasjóður átti 2.228 fasteignir um land allt um áramótin og hefur þeim fjölgað um 35 frá því í lok nóvember. Rétt rúmlega helmingur fasteigna sjóðsins var áður í eigu byggingaraðila, fyrirtækja í leiguíbúðarrekstri eða annarra lögaðila eða samtals 1.145 eignir.  

Á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi á Íbúðalánasjóður 1.538 eignir, þar af 743 á Suðurnesjum. Á Austurlandi og Norðurlandi eystra á sjóðurinn 350 eignir, þar af 224 á Austurlandi.

Þann 31. desember 2012 voru 903 íbúðir í útleigu um land allt. Þá voru 325 íbúðir óíbúðarhæfar annað hvort vegna þess að þær eru á byggingarstigi og því ekki fullbúnar eða vegna aldurs og ástands. Í sölumeðferð voru 769 íbúðir.

Stærstur hluti íbúða sem eru í útleigu eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að leigja út eignir í almennri útleigu á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði. Þær íbúðir sem leigðar eru út til almennrar útleigu eru auglýstar til leigu á helstu fasteignavefsíðum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×