Handbolti

Katarmenn ekki í vandræðum með Síle - eiga enn möguleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Katarmenn fögnuðu sínum fyrsta sigri á HM í handbolta í kvöld þegar liðið vann átta marka sigur á Síle, 31-23, en þessi lið eru eins og kunnugt er í riðli með íslenska landsliðinu. Katar mætir Íslandi í lokaumferðinni og á enn smá möguleika á sæti í átta liða úrslitunum.

Katar tók völdin í byrjun, komst í 7-2 og var með sjö marka forskot í hálfleik, 16-9. Sigur Katarmanna var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum en Síle lagaði stöðuna undir lokin með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins.

Sahbi Aziza skoraði átta mörk fyrir Katar, Bassel Alrayes var með 6 mörk og Mohsin Yafai varði 18 skot í markinu. Rodrigo Salinas skoraði mest fyrir Síle eða 7 mörk.

Katarmenn eiga einn möguleika á því að komast í átta liða úrslitin en verða að treysta á það að Danir vinni Íslendinga og vinna svo Ísland í lokaumferðinni. Katar kæmist þá áfram á kostnað íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×