Handbolti

Guðjón Valur: Þeir voru einfaldlega betri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson segir að framundan sé ekkert nema bikarúrslitaleikir fyrir íslenska landsliðið á HM í handbolta.

Ísland tapaði fyrir Danmörku í Sevilla í kvöld með átta marka mun. „Það er þó ólíkt að tapa fyrir Rússlandi, þegar við vorum mjög lélegar, og í dag þegar við vorum að spila við frábært lið," sagði Guðjón Valur við Arnar Björnsson eftir leikinn í kvöld.

„Við áttum í stórkostlegum vandræðum gegn þeim. Við náðum varla að klukka þá og þeir fengu allt of mikið af fríum skotum."

„Það er auðvitað hundfúlt að tapa. En nú erum við í þeirri stöðu að ef við vinnum Katar tekur við bikarkeppni hjá okkur. Við þurfum því að grafa þennan leik eins djúpt og við getum og gleyma honum."

Ísland þarf að stóla á danskan sigur gegn Makedóníu á föstudag til að forðast það að mæta Frökkum í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Nú förum við upp á hótel og reynum að græja það að Danirnir taki á þeim. En að öllu gríni slepptu þá er stórhættulegt að slaka á í svona mótum. Það þarf að halda dampi og við vonum að þeir geri það."

Guðjón Valur segir að íslensku leikmennirnir hafi verið teknir í kennslustund í upphafi síðari hálfleiks í dag.

„Þeir keyrðu í bakið á okkur og skoruðu grimmt, án þess að við náðum að skipta inn á varnarmönnunum okkar. Þeir voru líka oft að skora af löngum færum."

„Það þarf að horfast í augu við raunveruleikann og segja að Danir voru einfaldlega betri í dag. Danir eru Evrópumeistarar en ég vil samt meina að við getum unnið þetta lið á góðum degi."

„En til þess þurfa fleiri leikmenn að hitta á góðan dag sem gerðist því miður ekki. Við fengum rassskellingu í dag og heilmikið sem hægt er að læra af því."

„Nú þurfum við að taka það jákvæða með okkur úr þessum leik, taka Katar og gera svo allt vitlaust í bikarkeppninni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×