Max raftæki verður með afar veglegt tilboð á Samsung sjónvarpstæki í nótt. Á milli klukkan 04:00 til 07:00 í nótt verður 50% afsláttur á 32" Samsung LED sjónvarpi. Það er ekki tilviljun að Max raftæki kjósi að bjóða sjónvörpin á þessum frábæra afslætti í nótt og vilja með þessu framtaki gagnrýna miðasölu Knattspyrnusambands Íslands fyrir leik Íslands og Króatíu um miðjan nóvember.
„Við sáum okkur leik á borði. Við vildum vekja smá athygli og um leið gagnrýna KSÍ fyrir framkvæmdina á miðasölunni. Það er svolítið skrýtið að setja miðasölu í gang þegar allir eru sofandi,“ segir Viktor Rúnar Rafnsson, verslunarstjóri hjá Max Raftækjum.
Tíu sjónvörp verða í boði og verða þau aðeins seld í gegnum heimasíðu Max raftækja í nótt. Hver einstaklingur getur þó aðeins keypt eitt sjónvarp. „Við höfum fengið mikil viðbrögð og við verðum með mann á vakt til að passa að þetta gangi allt vel fyrir sig. Við gerum fastlega ráð fyrir að þessi tíu sjónvörp verði fljót að fara,“ segir Viktor Rúnar.

