Lífið

Brjáluð móðir drepur Helga

Tekur sig vel út Hér má sjá Helga Sæmund í leikaragírnum í kvikmyndinni Walkers.
Tekur sig vel út Hér má sjá Helga Sæmund í leikaragírnum í kvikmyndinni Walkers.
„Þetta var rosalega skemmtileg reynsla,“ segir rapptónlistarmaðurinn Helgi Sæmundur Guðmundsson úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur leikur hlutverk í leiknu heimildarmyndinni Walkers, sem fjallar um afturgöngur á Íslandi.

Helgi leikur vinnumann sem á í ástarsambandi við stúlku þvert á vilja móður hennar. „Móðirin er svo ósátt við þetta ástarsamband að á endanum drepur hún mig,“ segir Helgi.

Myndin er samstarfsverkefni ungra kvikmyndagerðarmanna sem safna nú á vef Karolina Fund, í von um að ná að fjármagna lokastig myndarinnar. Að sjálfsögðu vonast Helgi til þess að myndin verði kláruð. En aðkomu Helga að kvikmyndinni bar skjótt að höndum. „Ég fékk óvænt símtal frá einum aðstandanda myndarinnar. Ég hef ekki leikið áður og það er ekki í mínum plönum að hella mér út í leiklistina. En ef einhverjum leikstjóra líst vel á mig í myndinni þá er ég mjög til í að leika meira.“

Hljómsveitin Úlfur Úlfur vinnur nú að útgáfu nýrrar plötu. „Við stefnum á að gefa hana út í febrúar. Við höfum verið að skoða útgáfumál. Nokkrir útgefendur hafa rætt við okkur, en það gæti endað með því að við gefum plötuna bara út sjálfir.“ Helgi er nú fluttur úr höfuðborginni og býr á Hellu, ásamt kærustu sinni sem er dýralæknir í Rangársveit. „Það gerir samstarf okkar Arnars (Freys Frostasonar) aðeins erfiðara. Ég er með hljóðver hérna heima og bíð eftir því að hann komi í kjúkling og rapp,“ segir Helgi en lítið er eftir af plötunni að hans sögn. „Þetta er mestmegnis einhver frágangsvinna sem er eftir. Hún er nánast fullkláruð.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.