Innlent

400 jarmandi jólagjafir

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Yfir 400 geitur voru sendar að gjöf til fátækra fjölskyldna í Úganda og Malaví fyrir jólin í fyrra. Bjarni Gíslason, upplýsingafulltrúi Hjálparstofnunar kirkjunnar, sem stendur fyrir gjöfunum segir að salan sé síst minni í ár en í fyrra.

Hjá Hjálparstofnun kirkjunnar er hægt að kaupa gjafabréf og kaupandinn ákveður hvert andvirði bréfsins er. Hægt er að velja á milli þess að gefa geitur, hænur, verkfærakassa, vatnsbrunna, smokka og ýmislegs fleira. Andvirðið er svo sent til þeirra sem á þurfa á halda á fátækari stöðum í heiminum.

Hægt er að velja um gjafabréf að verðmæti 1.500 krónur og allt upp í 180 þúsund, en fyrir þann pening er hægt að kaupa vatnsbrunn sem gefur allt að 600 manns vatn. Hreint vatn forðar fólki frá sjúkdómum, léttir vinnuálagi af konum og gefur þeim tíma til þess að sinna matvælarækt og uppeldi. Þannig fá stúlkur tíma til þess að fara í skóla.

Litlir peningar á Íslandi verða að miklum i þessum löndum og Bjarni segir gjafirnar mikils virði. Sem dæmi nefnir hann að geit kosti 3.200 íslenskar krónur en úti sé hún miklu meira virði. Ein geit gefur af sér mjólk, skinn og jafnvel kjöt.

„Sumir vilja hafa þetta skondið og gefa til dæmis smokka eða kamar en það er meðal þess sem við bjóðum upp á að gefa,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×