Innlent

Verðmunur á jólamatvörum mikill

Samúel Karl Ólason skrifar
Bónus var með lægsta verðið í 48 tilvikum af 89 í verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ. Krónan var ódýrust í 13. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið í 45 tilvikum af 89 og Nóatún í 16.

Flestar vörurnar voru fáanlegar í verslun Fjarðarkaupa eða 84 af 89 og Iceland átti 83. Úrvalið hjá Bónus var minnst, 63 vörur af 89 og í Nóatún voru þær 70. „Verðmerkingum var ábótavant hjá Víði Skeifunni, hjá Krónunni Granda og hjá Samkaupum–Úrvali Hafnarfirði.“

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 89 matvörum, sem eru mikið keyptar fyrir jólahátíðina, í níu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri síðastliðinn mánudag.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Holtagörðum, Krónunni Granda, Nettó Akureyri, Iceland, Víði Skeifunni, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Háaleitisbraut,  Samkaupum - Úrvali Hafnarfirði og Hagkaupum Kringlunni.

Hér á eftir koma niðurstöður könnunarinnar:

Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á Oskar andarkrafti sem var dýrastur á 534 kr. hjá Iceland en ódýrastur á 279 kr. hjá Bónus, verðmunurinn er 255 kr. eða 91%. Mikill verðmunur var einnig á Þykkvabæjar forsoðnum skyndikartöflum 2*500 gr. voru þær dýrastar á 619 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrastar á 459 kr. hjá Bónus, verðmunurinn 160 kr. eða 35%.

Minnstur verðmunur reyndist vera á MS ¼ l af rjóma sem var dýrastur á 239 kr. hjá Víði en ódýrastur á 228 kr. hjá Nettó sem er 5% verðmunur. Það var einnig 5% verðmunur á Mjólku mangó/ástaraldinskyrtertu 600 gr. sem var dýrust á 1.154 kr. hjá Samkaupum–Úrvali en ódýrust á 1.098 kr. hjá Krónunni og Iceland. Benda má á að verðmunur á mjólkurvörum fór aldrei yfir 30% af þeim vörutegundum sem skoðaðar voru.

Af öðrum vörum má t.d. nefna að mikill verðmunur var á 135 gr. konfektkassa frá Nóa sem var ódýrastur á 798 kr. hjá Bónus en dýrastur á 1.089 kr. hjá Nóatúni sem gerir 36% verðmun. Einnig var mikill verðmunur á Ora jólasíld 630 gr. sem var ódýrust á 748 kr./st. hjá Hagkaupum en dýrust á 998 kr./st. hjá Iceland sem er 33% verðmunur. KEA úrbeinað hangilæri var ódýrast á 3.195 kr./kg. hjá Bónus en dýrast á 3.898 kr./kg. hjá Samkaupum–Úrvali sem er 22% verðmunur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×