Handbolti

Aron með tvö mörk þegar AZ sló Heerenveen út úr bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannson
Aron Jóhannson Mynd/NordicPhotos/Getty
AZ Alkmaar komst í kvöld áfram í átta liða úrslit hollenska bikarsins í fótbolta eftir 7-6 sigur á Heerenveen í vítakeppni. Leikurinn sjálfur endaði með 2-2 jafntefli.

Aron Jóhannsson skoraði bæði mörk AZ Alkmaar í leiknum og skoraði einnig í vítakeppninni alveg eins og Alfreð Finnbogason hjá Heerenveen. AZ Alkmaar komst í 4-2 í vítakeppninni en Heerenveen náði að jafna í 4-4. Úrslitin réðust síðan í bráðabana.  

Marokkóbúinn Hakim Ziyech skoraði bæði mörk Heerenveen í leiknum en hann kom liðinu í 1-0 á 9. mínútu og tryggði Heerenveen vítakeppni með því að jafna úr vítaspyrnu á lokamínútu framlengingarinnar.

Mörk Arons komu á 19. mínútu og svo á 105. mínútu þegar hann kom liðinu í 2-1 í framlengingunni. Aron spilaði allan leikinn eins og Alfreð en Jóhann Berg Guðmundsson var tekinn af velli í upphafi framlengingar.

AZ Alkmaar er ríkjandi bikarmeistari en Aron Jóhannsson og Jóhann Berg Guðmundsson tóku báðir þátt í bikar sigri liðsins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×