Innlent

Stökkbreytt gen sem tengjast geðklofa auka sköpunargáfu

Heimir Már Pétursson skrifar
Þeir sem hafa stökkbreytt gen sem tengjast geðklofa og einhverfu eru líklegri til að hafa mikla sköpunargáfu segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Þeir sem hafa stökkbreytt gen sem tengjast geðklofa og einhverfu eru líklegri til að hafa mikla sköpunargáfu segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar visir/gva
Íslensk erfðagreining hefur greint frá uppgötvun á tengslum stökkbreyttra gena sem tengjast geðklofa og einhverfu við aukna sköpunargáfu. Forstjóri fyrirtækisins segir að þeir sem hafi þessi stökkbreyttu gen séu líklegri til að hafi meiri sköpunargáfu en aðrir.

Greint var frá uppgötvun Íslenskrar erfðagreiningar í tímaritinu Nature seinnipartinn í gærdag. Þar kemur fram að þeir einstaklingar sem hafa stökkbreytt gen sem auka líkur á að einstaklingar fái geðklofa eða einhverfu séu meira skapandi en aðrir. Kára Stefánssyni forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar þykir merkilegast við þessar niðurstöður hvaða áhrif þessi stökkbreyttu gen hafa á einstaklinga sem hafa þau en eru hvorki með geðklofa né einhverfu.

„Þegar þær eiga sér stað í einstaklingum sem eru hvorki með geðklofa eða einhverfu þá hafa þær áhrif á hugsun. Það er að segja að þetta eru stökkbreytingar sem tífalda líkurnar á geðklofa t.d. en engu að síður eru í kringum 80 til 90 prósent af þeim sem eru með stökkbreytinguna en fá ekki sjúkdóminn,“ segir Kári.

Þetta þýði að þær hugsanabreytingar eða vandamál sem eigi sér stað hjá geðklofasjúklingum séu ekki afleiðing sjúkdómsins heldur megi leiða að því líkur að sjúkdómurinn sé afleiðing af þessum hugsanabreytingum.

„Síðan er annað sem mér þykir mjög spennandi, sem er að sköpunargáfa, mikil sköpunargáfa, virðist algengari í fjölskyldum þar sem geðklofi á sér stað heldur en annars staðar. Og til þess að geta verið skapandi þarftu að hugsa öðruvísi,“ segir Kári.

Því sé ekki ólíklegt að þessar stökkbreytingar hafi á sér tvær myndir. Annars vegar þær alvarlegu afleiðingar að einstaklingurinn þrói með sér geðklofa eða einstaklingurinn verði meira skapandi en ella hins vegar.

„En þetta er bara fyrsta skref hjá okkur í þá átt að nota erfðafræðina til að búa til skilning á því hvernig heilinn virkar, sem er auðvitað mikilvægasta líffæri mannsins. Það er það líffæri sem skilgreinir okkur sem dýrategund og síðan okkur sem einstaklinga innan tegundarinnar,“ segir Kári.

Það komi ekki á óvart að 80 til 90 prósent þeirra sem eru með þessi stökkbreyttu gen fái ekki geðklofa. Þetta sé algengt innan erfðafræðinnar.

„En taktu eftir því að tíðnin á geðklofa í okkar samfélagi er einhvers staðar á milli 0.6 til eitt prósent. En einstaklingarnir sem eru með þessa stökkbreytingu eru með tíu sinnum meiri líkur á að fá sjúkdóminn. Þannig að þessar stökkbreytingar auka mjög mikið líkurnar á sjúkdóminum en engu að síður er það langt, langt í frá  að vera 100 prósent þeirra sem eru með stökkbreytinguna sem fá sjúkdóminn,“ segir Kári Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×