Innlent

Viskan í augnaráði Mandela

Jakob Bjarnar skrifar
Vigdís segir Mandela fyrirmynd fyrir heiminn.
Vigdís segir Mandela fyrirmynd fyrir heiminn.
Nelson Mandela fyrrverandi forseti Suður-Afríku, frelsishetja og helsti leiðtogi þjóðar sinnar, lést á heimili sínu í gærkvöldi eftir að hafa verið undir læknishendi vegna sýkingar í lungum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og íslensku þjóðarinar sent samúðarkveðjur til suðurafrísku þjóðarinnar vegna fráfalls hans; Mandela hafi verið táknmynd frelsis, vonar, mannúðar og fyrirgefningar og með fráfalli hans sé ekki einungis genginn helsti leiðtogi Suður Afríkur heldur heimsbyggðarinnar allrar. Minningin um baráttu hans í þágu jafnréttis og mannréttinda muni ávallt lifa.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, segir ekki hægt að vera sorgmæddur við fráfall þegar einstaklingur hafi verið veikur lengi og kominn á þennan aldur. En, Mandela er ríkur í huga Vigdísar.

„Hann er náttúrlega ekki horfinn úr minningu okkar. Ég hitti hann einu sinni og hitti þar fyrir mikinn mannúðarmann. Ég álít að hann hafi verið fyrirmynd fyrir heiminn.“

Hvernig kom hann þér fyrir sjónir?

„Hlýr, með viskuna í augnaráðinu og ákaflega áhrifaríkt að spjalla við hann nokkur orð.“

Menn hafa haft á orði að hann sé einn merkasti stjórnmálamaður sögunnar, myndir þú taka undir það?

„Hann er alla vega einn af allra minnisstæðustu stjórnmálamaður okkar tíma. Tvímælalaust. Ég þori nú ekki að svara fyrir aldirnar fyrir aftan okkur. Mannúðarstefna hans og það afrek að ráða við að koma á réttlætinu í Suður-Afríku – það er náttúrlega einstakt í heimssögunni.“

Guðmundur Andri skrifar það sem margur vildi sagt hafa.
Með kærleikann að leiðarljósi

Fjölmargir Íslendingar hafa tjáð trega sinn vegna andláts Mandela, sem var 95 ára þegar hann lést, á Facebook.

Þannig skrifaði til að mynda Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur á sína síðu, og virðist skrifa það sem margur vildi sagt hafa því þessum stutta pistli hefur verið dreift víða um net:

„Gandhi – Martin Luther King – Nelson Mandela: allir fundu þeir leið til að bregðast við eilífum ósigrum og daglegri niðurlægingu; að snúa henni upp í mannlega reisn, án þess að upphefja þjáninguna eins og kaþólikkar gera heldur einmitt með því að mæta kúgun og þjáningu með alvöru, horfast í augu við hana, neyða kúgarann til að horfast í augu við sig sem manneskju. Þeir störfuðu allir í anda Fjallræðunnar þar sem er að finna hinn eiginlega grundvöll kristninnar. Gandhi var drepinn á stund sigursins og Martin Luther King á umbrotatímum þegar margt hafði áunnist en Nelson Mandela var einmitt stærstur á sigurstundinni og í kjölfar hennar og veitti okkur mikilvæga kennslu í því hvernig á að takast á við þá sem hafa kúgað og hatað og nært lygina: með kærleikann og sannleikann að leiðarljósi.“

Jóhannes kom á fundi við Mandela í gegn um Bridget Mabandla, menningar- og vísindaráðherra Suður Afríku.
Fyllti herbergið með ótrúlegri nærveru

Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamaður var 28 ára þegar hann hitti Mandela í Jóhannesarborg í júlí árið 2000 ásamt þeim Inga R. Ingasyni og Róberti Marshall. „Ég man þegar ég stóð í garðinum fyrir utan heimili hans í úthverfi Jóhannesarborgar hugsaði ég að hann hefði setið í fangelsi í jafn langan tíma og ég hafði lifað, mínus eitt ár,“ skrifar Jóhannes á bloggsíðu sína í dag.

Jóhannes var að vinna fyrir samtökin Path - European Youth Without Drugs og kom á fundi við Mandela í gegn um Bridget Mabandla, menningar- og vísindaráðherra Suður Afríku.

„Við færðum Mandela gjafir; ljósmyndabækur um Ísland og lítinn stein frá Þingvöllum,“ skrifar Jóhannes. „Hann tók vel á móti gjöfunum og var sérstaklega ánægður með að hafa „piece of Iceland in my office.“  Ég rétti honum ljósmyndabókina og fletti upp á mynd af Þingvöllum en missti um leið bréf frá mér og Víkingi sem datt á gólfið. Ingi R. stökk til og ætlaði að beygja sig eftir bréfinu en Mandela stoppaði hann. Og þá kom saga úr fangelsinu þar sem hann lýsti því hvernig fangaverðirnir hentu öllum bréfum sem honum bárust í fangelsið á gólfið. Með þessu hafi þeir viljað niðurlægja hann. Mandela beygði sig því sjálfur eftir bréfinu. Þetta var augnablik sem ég mun aldrei gleyma.“

Jóhannes segir Mandela hafa fyllt herbergið með ótrúlegri nærveru og segist hann viss um að hann muni aldrei upplifa slíkt „charisma“ frá manneskju aftur.

„Þegar fundinum lauk gekk Mandela að hurðinni og opnaði fyrir okkur og sagði um leið; „Nú getið þið sagt að Mandela hafi opnað fyrir ykkur hurðina,“ og hló innilega og kvaddi okkur með virktum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×