Viðskipti innlent

Segir aðeins lítinn hluta viðskiptavina þurfa á skuldalækkun að halda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Endurmat á hlutabréfum og skuldabréfum Landsbankans skýrir um þriðjung af 22 milljarða króna hagnaði Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins að sögn bankastjórans. Hann segir að aðeins lítill hluti viðskiptavina bankans þurfi á meiriháttar skuldaleiðréttingu að halda.

Landsbankinn kynnti í morgun uppgjör sitt fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Hagnaður bankans á tímabilinu nam 22,2 milljörðum króna sem er aukning um tæpa níu milljarða króna fyrir sama tímabil í fyrra þegar hagnaðurinn var 13,5 milljarðar króna. Ekki hafa verið miklar sveiflur í rekstri bankans á árinu. Eigið fé bankans nam 234,7 milljörðum króna í lok september og hefur hækkað um 4 prósent á árinu þrátt fyrir 10 milljarða króna arðgreiðslu til ríkissjóðs á árinu.

Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir tekjur hafa vaxið samhliða lækkun kostnaðar. Hluta hagnaðarins má rekja til þess að hlutabréf og skuldabréf í eigu bankans hafa hækkað í verði.

Aðspurður hversu stóran hluta hagnaðarins megi rekja til endurmats á virði skuldabréfa og hlutabréfa segir Steinþór að þetta sé um þriðjungur.

Sérstök nefnd ríkisstjórnarinnar vinnur að tillögum til að lækka höfuðstól verðtryggðra fasteignalána hjá einstaklingum. Landsbankinn, eins og önnur fjármálafyrirtæki, hefur ráðist í meiriháttar aðgerðir til niðurfærslu á skuldum einstaklinga á síðstliðnum árum.

Er þetta stór hluti viðskiptavina Landsbankans sem þarf á skuldaniðurfærslu að halda núna, eins og ríkisstjórnin hefur lofað? „Nei, ég myndi ekki segja að það væri hjá stórum hluta. Við sjáum vanskilin lækka stöðugt og þau hafa lækkað hratt síðustu misseri. Þannig að þetta er tiltölulega lítill hópur. Þetta er ekki almennt,“ segir Steinþór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×