Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandsbanka dregst saman um 800 milljónir milli ára

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hagnaður Íslandsbanka dregst saman um 800 milljónir króna milli ára en bankinn birtir í dag afkomu þriðja ársfjórðungs 2013.

Hagnaður bankans var 16,2 milljarðar króna á sama tíma fyrir ári en er í dag 15,4 milljarðar.

Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 4,2 milljarða á þriðja ársfjórðungi en 4,6 milljarðar fyrir einu ári síðan.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 10,6% á fjórðungnum en 13,4% sé horft til fyrstu níu mánaða ársins en samkvæmt fréttatilkynningu frá Íslandsbanka skýrist lækkun á arðsemi að mestu af hærra eigin fé, sem hefur hækkað um 3% á milli fjórðunga og 14% á milli ára.

Eiginfjárhlutfall er áfram sterkt eða 27,2%  og eiginfjárhlutfall er 23,9%.

Hreinar vaxtatekjur námu 7,4 milljarðar króna en var á sama tíma fyrir ári síðan 7, milljarðar sem er lækkun um 5.1% milli ára.

Kostnaðarhlutfall lækkaði í 48,5% á þriðja ársfjórðungi.

„Það sem uppúr stendur á fyrstu níu mánuði ársins er sá góði árangur sem við höfum náð í rekstrarhagræðingu þar sem kostnaður bankans lækkaði um 732 milljónir sem er raunlækkun kostnaðar 7,5% á milli ára. Þessi lækkun byggir á ýmiskonar markvissum aðgerðum m.a. sameiningu útibúa,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

„Afkoma bankans var í takt við áætlanir og arðsemi eigin fjár var 13,4% sem hlýtur að teljast gott í ljósi sterkrar eiginfjárstöðu en eiginfjárhlutfall bankans var 27,2%“.

„Þó svo að sumarið seti gjarnan svip sinn á þennan ársfjórðung þá var engu að síður mikið um að vera í bankanum. Þóknanatekjur jukust um 13% á milli ára í 7,6 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 6,7 milljarða á sama tímabili í fyrra“.

„Gæði lánasafnsins jókst milli fjórðunga, hlutfall lána í meira en 90 daga vanskilum var 5% í lok tímabilsins og hlutfall lána í endurskipulagningu (LPA) var 9,8%, sem er mikill árangur en staða lána í endurskipulagningu nam 44% árið 2009."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×