Viðskipti innlent

Steingrímur Páll greiði Arion banka milljarð

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Steingrímur Páll Kárason var framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings banka.
Steingrímur Páll Kárason var framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings banka. Myndir/Pjetur og GVA
Steingrímur Páll Kárason sem var framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings var í dag dæmdur í Hæstarétti til að greiða Arion banka hf. rúman milljarð íslenskra króna með dráttarvöxtum. Hæstiréttur staðfesti þannig dóm Héraðsóms Reykjavíkur frá því í janúar.

Steingrímur Páll hafði tekið lán hjá Kaupþingi til kaupa á hlutum í bankanum. Með yfirlýsingu forstjóra Kaupþings hf. var tilkynnt að ákveðið hefði verið að fullnusta ekki persónulegri ábyrgð hans á lánunum og að ábyrgð Steingríms takmarkaðist við hlutabréf sem sett hefðu verið að veði.

Arion banki krafðist þess í málinu að Steingrími yrði gert að greiða fjárhæð sem svaraði til persónulegrar ábyrgðar hans á tveimur lánum sem Kaupþing hafði upphaflega veitt honum og Arion banki hafði fengið framseld.

Byggði bankinn á því að með áðurgreindri yfirlýsingu hefði ekki verið felld niður ábyrgð Steingríms á þeim hluta lánanna sem ekki var varið til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi.  Þau lán sem Arion banki krafðist greiðslu á voru svokölluð þekjulán sem bættust við upphaflegu lánin frá Kaupþingi, það er að segja lán sem veitt voru vegna hækkunar á hlutafé, sem Steingrímur hafði áður fengið lánað til að fjárfesta í.

Talið var að hvorki sjónarmið um forsendubrest né ósanngirnisástæður ættu við í málinu.

Þá voru yfirlýsingar stjórnar og forstjóra Kaupþings um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar ekki taldar eiga við um lánssamningana.

Loks var talið að lánssamningar hefðu falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum og að Arion banka hefði verið heimilt að umreikna lánin samkvæmt ákvæðum samninganna í íslenskrar krónur.

Steingrími var þannig gert að greiða Arion banka hf. tæpar 900 milljónir sem með dráttarvöxtum fer yfir milljarð íslenskra króna.

Steingrímur hefur áður verið dæmdur af Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Kaupþings 91 milljón króna ásamt vöxtum, en það var sá hluti lánanna sem nýttur var til að kaupa hlutabréf í bankanum.

Þar var staðfest kyrrsetningargerð í eignarhlut Steingríms í félaginu Hvítsstöðum ehf. sem hann á með nokkrum fyrrum lykilstjórnendum Kaupþings og eignarhlut hans í tveimur fasteignum í Reykjavík.

Steingrímur var með réttarstöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á meintri misnotkun Kaupþings banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×