Innlent

Raunveruleg jólastjarna á himni í desember

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Von er á stórkostlegu sjónarspili á himni í desember þegar ævaforn halastjarna heiðrar jarðarbúa með nærveru sinni. Vísindamenn og stjörnuáhugamenn vítt og breitt um heiminn fylgjast nú með halastjörnunni er hún æðir framhjá sólinni.

Halastjarnan ISON, sem er um fimm kílómetrar að þvermáli, á rætur að rekja til árdaga sólkerfisins og hefur síðustu 4.5 milljarða ára svifið gaddfreðið í ystu afkimum sólkerfisins. Halastjarnan sést  þegar á næturhimni í meyjarmerkinu. Venjulegan handsjónauka þarf til að sjá ISON en hún er þó ekki eins björt og menn vonuðu um þessar mundir.

ISON er að ljúka fyrri atrennu sinni um sólkerfið og nálgast sólina á 185 þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Hér tekur við tímabil sólnándar þar sem ISON verður fyrir barðinu á gríðarlegum hita sólarinnar og sterkum útfjólubláum geislum. Um leið myndast hinn mikli hali sem einkennir halastjörnur.

Svo gæti farið að ISON þurrkist að mestu út við sólnánd. Ef ekki, þá eigum við jarðarbúar von á stórkostlegu sjónarspili í desember.

„Himinninn gæti orðið afskaplega fallegur í desember með tilkomu þessarar jólastjörnu,“ segir Sævar Helgi Bragason, hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. „ISON gæti orðið björt í nokkra daga en svo fjarar hún út. En það gæti verið að tignarlegur hali sjáist á himni.“

Ef allt fer að óskum og ISON kemst að mestu ósködduð frá sólu þá munum við, snemma í desember, sjá halastjörnuna í austri að morgni og þá neðarlega á himni. Halastjarnan mun einnig sjást að kveldi og þá líka neðarlega í vestri.

„Hún verður björtust snemma í desember. Skömmu eftir að hún ferðast framhjá sólinni. Þá er uppgufunin hvað mest. Við náttúrulega vonum það besta. Þetta gæti orðið mjög falleg jólagjöf fyrir okkur stjörnuáhugamenn,“ segir Sævar Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×